Kveðið í gljúfrum
Vegmóðum var mér úthýst,
- válega hvein í tindum -
bölvaði ég þá bónda,
börnunum hans og öllu;
dimmdi óðum af degi,
dundi foss í gili;
gekk ég án nokkurrar glætu,
gekk ég í opinn dauða,
gekk ég í sjálfan dauða.

Gekk ég í gljúfrin svörtu,
gínandi sprungan tók mig,
bein mín lágu þar brotin,
blóð mitt litaði stalla.
Lá ég einn og óhægt
í eilífu svarta myrkri;
en beinin mín brotnu hvítna,
þau bein hafa verið að meini,
þau bein skulu verða að meini.

Leitað var mín lengi,
langt og skammt var farið;
brá ég bleikum grönum,
beindi feigra sporum.
Fá vil ég nítján til fylgdar,
förum tuttugu saman;
nú eru orðnir úti
átján í þessu gili,
átján í djúpu gili.

Þegar dimmir af degi,
dynja fossar í gili,
vegmóðum verður úthýst,
válega hvín í tindum,
þá færist ég aftur í auka
og alla hingað teygi;
gnauðar þá kaldur gustur
í gljúfrunum mínum þröngu,
í gljúfrunum okkar þröngu.  
Jóhann Gunnar Sigurðsson
1882 - 1906


Ljóð eftir Jóhann Gunnar Sigurðsson

Kvöldbæn
Kvak
Undir seglum (Kveðið í veikindum)
Ad meam stellam - puellam
Þökk
Kveðið í gljúfrum
Í val
Óráð
Í álögum
Fyrir dauðans dyrum
Vísa
Hríð