Hríð
Ég get ekki lifað við eintóman ís
innst inni í hjörtum og lengst úti á töngum.
Kulsára hjartað mitt kólnar og frýs,
í kuldanum sit ég í öngum
og leik mér við fallegar frostrósir löngum.

Það verður nú bráðum að vora hjá mér,
svo völlurinn iðgrænn við sólinni hlæi,
en stormurinn mig út á blágaddinn ber,
ó, bara ég götuna sæi
heim á gestrisna, góða bæi.

Á meðan ég sé hvorki sól eða bæ,
þá syng ég með veikum og klökkvandi rómi.
Ég veit, að ég aldrei til fullnustu fæ
að fara með ljóð mín í tómi.
Röddin bilar í rokviðra hljómi.

Ef að ég dey svo að aldrei ég sé
ylmildan himin og blómgaða grundu
og finn aldrei vesalings hjartanu hlé,
uns hrekkur mér stafur úr mundu,
þá þakka ég öllum, sem eitt sinn mig fundu.
 
Jóhann Gunnar Sigurðsson
1882 - 1906


Ljóð eftir Jóhann Gunnar Sigurðsson

Kvöldbæn
Kvak
Undir seglum (Kveðið í veikindum)
Ad meam stellam - puellam
Þökk
Kveðið í gljúfrum
Í val
Óráð
Í álögum
Fyrir dauðans dyrum
Vísa
Hríð