Kirkja vorsins
Hvert leiddir þú mig, ljúfa þrá,
svo langt á árstíð kærri?
Sjá, vorsins kirkja hér er há
með hvelfing öllum skærri.

Hið helga ljós er heiðsól ein,
um hana er ljómar alla
og logar fögur, hlý og hrein
á háaltari fjalla.

Hér elfan þreytir orgelslátt,
svo óma kletta göngin,
og fuglar láta úr allri átt
svo indælt hljóma sönginn.

Og þetta á nú við mig vel,
það vorið er, sem messar
og hljóðri ræðu þrífur þel
og helgar stundir þessar.

Og hér er allt svo fullt af frið
og fullt af helgum dómum,
og gullna sólargeisla við
ég guðspjöll les í blómum.

Og gróðrarblær um grundir fer,
sem gerir allt að hressa;
þá finn ég vel að Vorið er
í víðri kirkju að messa.  
Steingrímur Thorsteinsson
1831 - 1913


Ljóð eftir Steingrím Thorsteinsson

Sumarnótt
Kirkja vorsins
Mótsagnir
Grafskrift svefnpurkunnar
Draumur hjarðsveinsins
Heilræðastökur
Haustkvöld
Sorg og viska
Kveðja
Verndi þig englar
Vetur
Við hafið
Augun bláu