Haustkvöld
Vor er indælt, ég það veit,
þá ástar kveður raustin.
En ekkert fegra´ á fold ég leit
en fagurt kvöld á haustin.

Aftansunna þegar þýð
um þúsundlitan skóginn
geislum slær og blikar blíð
bæði um land og sjóinn.

Svo í kvöld við sævar brún
sólu lít ég renna;
Vestan geislum varpar hún,
sem verma, en eigi brenna.

Setjumst undir vænan við.
Von skal hugann gleðja.
Heyrum sætan svanaklið.
Sumarið er að kveðja.

Tölum við um tryggð og ást,
tíma löngu farna.
Unun sanna, er aldrei brást,
eilífa von guðs barna.

Endasleppt er ekkert hér,
alvalds rekjum sporið;
Morgunn ei að aftni ber
og ei af hausti vorið.

Oflof valið æsku þrátt,
elli sæmd ei skerði;
Andinn getur hafist hátt,
þó höfuð lotið verði.

Æska, ég hef ást á þér,
fyr elli kné skal beygja;
Fegurð lífs þótt miklist mér,
meira en hitt; að deyja.

Elli, þú ert ekki þung,
anda guði kærum;
Fögur sál er ávallt ung
undir silfurhærum.

Spegilfagurt hneigð við haf
haustkvölds sólin rauða.
Bólstri ránar bláum af,
brosir nú við dauða.

Svo hefir mína sálu kætt
sumarröðull engi.
Er sem heyri ég óma sætt
engilhörpu strengi.

Fagra haust, þá fold ég kveð.
Faðmi vef mig þínum.
Bleikra laufa láttu beð
að legstað verða mínum.  
Steingrímur Thorsteinsson
1831 - 1913


Ljóð eftir Steingrím Thorsteinsson

Sumarnótt
Kirkja vorsins
Mótsagnir
Grafskrift svefnpurkunnar
Draumur hjarðsveinsins
Heilræðastökur
Haustkvöld
Sorg og viska
Kveðja
Verndi þig englar
Vetur
Við hafið
Augun bláu