Sigrúnarljóð
Þú angraðir mig áðan
með orðum þínum, Sigrún!
Eg bað þig aftur mig hitta,
ef andaðist þú fyrri;
kvaðst þú ei trúa að kalda
eg kyssi þig vildi,´né hjúpaða hvítbleika
þig höndum umspenna.

Mín trúir þá ei meyja
að muni eg sér unna
ef hún eigi trúir
eg unni sér fölri.

Þínar það víst eru varir
þó verði þær kaldar,
kinnar eg sé þær sömu
þó sjái eg þær hvítar.

Kyssir ei á köldum
kalda mjöllu vetri
röðull, jafnt sem rauðar
rósir á sumrum?
Hvít er hreinust lilja,
hvít ert þú sjálf sem mjöllin.
Muntu þá miður skarta
þó munnur og kinnar hvítni?

Þó heimsdvalar-dreyrinn
deyi þér af vörum,
blærinn þær blíðlega skreytir
blásala eilífðar.
Engilhvítt formið hið fagra
finnast mun óskert kinna
jafnfrítt og jafgott rauðu
þó jarðblysin slokkni.

Mærin mín hin skæra!
mig ei láttu því einan,
mér þó farir þú fyrri
til friðsala himna.
Komdu þegar á köldu
kólgur ganga hausti
og um miðnætti máni
í mökkva sig hylur.

Mun þá fölur máni
af meðaumkvun bregða
blæju sinni, svo bjarta
eg brosa þig sjái.
Farðu þá, mín fagra!
Fljótlega mér að bólstri
og hendi hvítri og mjúkri
mig hóglega snertu.

Svo þegar bregð eg blundi
og breiði faðm þér móti,
snjóköldum barmi snúðu
snarlega mér að hjarta.
Fast kreistu brjóst mér að brjósti
og bíddu unz máttu lausan
fá mig úr líkams fjötrum,
svo fylgja þér megi eg.

Glöð skulum bæði við brott síðan halda
brennandi í faðmlögum loftvegu kalda
í gullreiðum norðljósa þjóta um þá.
Væn svo þá smáblys í vindheimum glansa um vetrarbraut skulum í tunglsljósi dansa
og snjókýjabólstrunum blunda svo á.





 
Bjarni Thorarensen
1786 - 1841


Ljóð eftir Bjarna Thorarensen

Sigrúnarljóð
Til Jóns prests Þorlákssonar
Stjörnuskoðarinn
Veturinn
Kysstu mig hin mjúka mær
Um Fljótshlíð
Kossar
Hinir látnu
Solatium
Ísland
Íslands minni