MANSTU ÞÁ VINDA
Manstu þá vinda
er blésu vetri burt
manstu þá daga
er ástin var lítil jurt
manstu þær nætur
er átti ég með þér
manstu það vorið
sem löngu liðið er.
Manstu þær götur
er gekk ég með þér
manstu þau ljóðin
sem engin framar sér
manstu þá söngva
er sungu lífsins blóm
veturinn deyddi
með kuldans beru klóm.
Nú vindar eru hljóðir
alveg einsog þú
gleymdir þeir dagar
er vorið var mín trú
horfnar þær nætur
er átti ég með þér
vorið á burtu
og haust í hjarta mér.
Þegar það vorar
og vermir enn á ný
þá skal ég syngja
um dægrin svo hlý
þá skal ég láta
líktog værir þú hér
þá skal ég finna
jurt í brjósti mér.