Sexær drápa fyrir Sölva Björn Sigurðarson -ort undir finnskum tregahætti
1

Dunar dansinn
dagur er rís
gott er greppi’ að
gjalda degi
náðarhögg
með næturgagni.
Lifir nóttin?
Nóttin lifir.

2

Stoltur ljóði
strýkur kviðinn
Óðins gróður
æptur sunginn
anginn fældur
fleygur banginn.
Kyrja kverið,
kaldar varir.

3

Bjórum af bognar
borðið undan
sleppa lausum
skáldataumum.
Trítla neistar
tarfur miðar
sekkur svarta
sigur vís.

4

Nýir morgnar
næturgaman
tæmt úr glasi
trega blandað
þambað súrt
þegið klúrt.
Eilífð drykkur?
Eilífð drykkur.

5

Grætur greppur
gnístir ristum
tanna á millum
taktinn leistur
berg í leynum
barið grjótið
fleytir kerlum
finnur ströndu.

6

Leigjum vagninn
leið til bæja
tjaldborg reisum
tryggum höndum
læðumst inn og
leggjumst fyrir.
Sofa greppur?
Sofa greppur.
 
Eiríkur Örn Norðdahl
1978 - ...
Áður birt á Nýhil (www.hi.is/~haukurhe)


Ljóð eftir Eirík Örn Norðdahl

Öll konan
Esjan (með allt á hornum sér)
Bróðir minn (e)
Job af skáldi
Sexær drápa fyrir Sölva Björn Sigurðarson -ort undir finnskum tregahætti
Nafnlaust
Í leikhúsi (drög að frumvarpi)
Tígrar eru töff
Glápt
Ástir og ananas
Að frelsa heiminn
Ekki þessi orð
Hver má muna sitt fífl fegurra?
...og orðið var Clint
Heimsendapestin
[Nafnlaust] nr. 2
Varir skáldsins
Það er skuggsælt bakvið skítinn
Gull
Maður ríður vini sínum