Í leikhúsi (drög að frumvarpi)

Tjaldið lyftist (maður kveikir á útvarpi) (bók fellur úr hillu á bókasafni) (áhorfendur tryllast stutta stund, en þagna svo skyndilega eins og höndum hafi verið fórnað).

Ljóshærðar kynþokkagyðjur (eins og úr fiftís bíómynd) í ljósrauðum tálkjólum þetta eru ekki mellur heldur gleðikonur í svörtum sokkaböndum hlæjandi hver að annarri en samræminu (og samkvæminu) óhjákvæmilega og algerlega óvænt raskað af miðaldra manni í gráum jakkafötum með .38 kalibera fant milli fingrana.

„Haldið fyrir eyrun dömur, nú verða læti!” Óskiljanlega, skellir maðurinn upp úr.

Stúlkurnar gapa og hiksta og skelfast en eru of furðu lostnar til að skjálfa. Ekkert af þessu var í handritinu.

„Dömur, ég er ekki að grínast, haldið fyrir eyrun og gerið það strax!”

Ein af annarri fylla þeir eyru sín fingrum svo neglurnar (dömur eru alltaf með dulitlar neglur) skrapa hljóðhimnuna án þess að skemma hana verulega.

Þegar engin þeirra heyrir lengur til, miðar maðurinn vandlega á svarta leðurtánna, skýtur sig í fótinn og haltrar bölvandi út.

Tjaldið fellur. Útvarpið dettur á gólfið. Bókin brennur. Áhorfendur missa sig gjörsamlega í fanatískt brjálæði, ganga fylktu liði niður í miðbæ og henda stjórnarráðinu stein fyrir stein í tjörnina.
 
Eiríkur Örn Norðdahl
1978 - ...
Úr bókinni Nihil Obstat (Nýhil 2003).
kolbrunarskald@hotmail.com


Ljóð eftir Eirík Örn Norðdahl

Öll konan
Esjan (með allt á hornum sér)
Bróðir minn (e)
Job af skáldi
Sexær drápa fyrir Sölva Björn Sigurðarson -ort undir finnskum tregahætti
Nafnlaust
Í leikhúsi (drög að frumvarpi)
Tígrar eru töff
Glápt
Ástir og ananas
Að frelsa heiminn
Ekki þessi orð
Hver má muna sitt fífl fegurra?
...og orðið var Clint
Heimsendapestin
[Nafnlaust] nr. 2
Varir skáldsins
Það er skuggsælt bakvið skítinn
Gull
Maður ríður vini sínum