Hver má muna sitt fífl fegurra?

Í þá gömlugóðudaga að ruglukollvikin náðu mér aftur um hnakka – það eru ansi margir dagar orðnir aðrir en þá var – fréttist síðast af Meistara í Mannlegum Samskiptum makindalegum í eigin blóði sárlyndislegum á gangstéttarbrún við Austurstræti; hann var laminn greyið – það er ekki hægt að ætlast til að allir séu lífverur. Ég er t.d. rotvera. – rótvera – lát-vera – ekki tilbúinn þráður í líkama mínum ekki heil í hugsun í höfði mér heldur þessi sprottin úr órækt og skipulagsleysi:

Bananal kanónískar rottur lifa alltaf af stökkva alltaf frá borði rétt áður en skipið leggur úr höfn skríða upp undir pilsin á duggaramellum og segjast nýkomnar frá Cuxhaven og Hull með lestarfylli af kjaftæði handa landanum og „hver er það eiginlega heldurðu sem dregur allan gjaldeyrinn frá útlöndum?” spyrja þær stoltar og lygnar og kokhraustar og mellurnar rugga sér svo í lendunum renna upp pilsfaldinum og skella gulnuðu vaselíni milli mattra barma sér rétt eins og rotturnar myndu hantera fisk ef þær hefðu hugrekki til – lífið er lítið grín á veltingi og stórstormandi útsjó þegar þú vaknar í lausu lofti með meter niður í rúmið hjá þér og káetan hefur tekið á sig brot svo veggurinn er hálfur kominn ofaní efri kojuna og þú átt í mestu erfiðleikum með að opna hurðina til að dröslast á vakt. Þegar dagur hefst ruggar dugga í slefinu á koddanum þínum.

Í duggunni er ég.

Mér hefur verið sagt að Ísland sé klettur í Atlantshafi og íbúar þess þurfi að halda sér fast til að fjúka ekki út í sjó. Þetta er ekki satt. Ísland er þorskur, og íslendingar svif í maga hans.

Í hug dettur mér annar, barnabarnalegur, hugsandi:

Steinn bítur börn á sjómannadegi; börnunum verður hverft við og berja Stein til ólífis með naglaspýtu.

Tálknfræði: Maður tálknar afl og afl tálknar framleiðni og framleiðni tálknar pening og peningur tálknar mat og matur tálknar mann og maður tálknar afl og þannig áfram þangað til skorpan er orðin gullinbrún og allt helst til dautt.
 
Eiríkur Örn Norðdahl
1978 - ...
Úr ljóðabókinni Nihil Obstat (Nýhil, 2003). kolbrunarskald@hotmail.com


Ljóð eftir Eirík Örn Norðdahl

Öll konan
Esjan (með allt á hornum sér)
Bróðir minn (e)
Job af skáldi
Sexær drápa fyrir Sölva Björn Sigurðarson -ort undir finnskum tregahætti
Nafnlaust
Í leikhúsi (drög að frumvarpi)
Tígrar eru töff
Glápt
Ástir og ananas
Að frelsa heiminn
Ekki þessi orð
Hver má muna sitt fífl fegurra?
...og orðið var Clint
Heimsendapestin
[Nafnlaust] nr. 2
Varir skáldsins
Það er skuggsælt bakvið skítinn
Gull
Maður ríður vini sínum