Íslenskt morgunljóð
Nú þegar sól er runnin upp í austri
og inn um lokuð rimlatjöldin skín
við gluggann syngur lítill fugl í flaustri
með fölskum rómi morgunljóðin sín.

Úr næstu götu heyrist hávært geltið
frá hundi sem þar æðstan telur sig.
Ég klæði mig og bumban yfir beltið
þá bylgjast svo það hverfur inn í mig.

En við því getur ekki nokkur amast
þótt iði líf og vaknað sé nú flest.
Í næstu íbúð heyrist karlinn hamast
á henni sem hann fyrirlítur mest.

Og hægt en öruggt skapast borgarbragur
því bensíngufur menga loftið tært.
Já, upp er runninn unaðslegur dagur
og eiginkonan sefur djúpt og vært.
 
Jón Ingvar Jónsson
1957 - ...


Ljóð eftir Jón Ingvar Jónsson

Kvöldvísa
Netsonnetta að nóttu
Íslenskt morgunljóð
Til móður minnar
Aðventuljóð
Björn Hafþór fimmtugur
Óður til Þjóðkirkjunnar
Vökuljóð á skerplu