Besta orðið mitt
I
ég
besta orðið mitt
égégégégégég
égégég

ég skrifa það í hlykkjótta runu
með krúsídúllum þvers og kruss á síðuna

bandorm miskynjaðra bókstafa
éið er kvenkyns géið er kallkyns

ég flétta úr því óreglulega mynstraðan púkakrans
sætljótan einsog sjálfan mig

ef ég hataði sjálfan mig
hvernig gæti ég elskað aðra


II
aðrir
þær þeir þau hann hún það
skikkanleg ópersónuleg orð
lítt æsandi og meinlaus á pappírnum


III
þú
þú þú þú ó þú

viðkvæmt brothætt eldfimt orð
sem ég kveinka mér við að rita

ég vil heldur hvísla því í eyra þér
öskra það uppí opið geðið á þér


IV
þið
þið þið sum þið þið þið þið öll

orð sem sveiflast yfir blaðið
gunnfáni knýttur á lensu

við ykkur vil ég rífast
með ykkur vil ég vinna

hjá ykkur vil ég vera
og leika við ykkur

þið
án ykkar væri ég ekki til


V
ég þú þið
við

heyrðannars
við er besta orðið mitt
 
Dagur Sigurðarson
1937 - 1994
Úr bókinni Rógmálmur og grásilfur.
1971.
Allur réttur áskilinn Sigurði Dagssyni Thoroddssen.


Ljóð eftir Dag Sigurðarson

Sjálfsmorð
Geirvörtur (Til Möggu)
Besta orðið mitt
Sæla
Society Club
Vor á Sikiley
List = lifrarpylsa
Losti
Ástarjátning
Þína skál Reykjavík
Þjóðhátíð
Höfuðskepnur
Rós
Kvenmannsleysi
Haust
Mynd eftir barn (20x25 cm., blýantur og vaxkrít.)