Ástkæra heimsveldi
Gefðu mér stríð
svo ég megi vaka

og ekki eitt af þessum smávægilegu í Afríku
sem snúast um að hindra naflausan harðstjóra
í því að misþyrma kúguðum þegnum sínum
og er rétt minnst á
á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu.
Heldur eitt alvöru
sem snýst um olíu
og er sjónvarpað beint
frá einhverju Arabalandi
hingað upp á Frón.

Ó, gefðu mér stríð
svo ég hafi eitthvað til að skrifa um
en gerðu það í fjarlægu þriðja heims ríki
þar sem aðeins þeir deyja
sem ég þekki ekki.

En gefðu mér svo frið til að búa hér
langt frá stíðsvöllum þínum
og þeim ósanngjörnu orrustum sem þar eru háðar
en leyfðu mér að fylgjast með því
svo ég geti gagngrýnt stjórnvöld þín
og barist með orðum
gegn yfirlæti þeirra
og því hvernig þau hyggjast
herja á öllum heiminum
með ógninni um hryðjuverk.

Gefðu mér stríð
svo stjórnvöld minnar þjóðar geti stutt það
og tekið þátt í hernaði
án þess að missa syni síns lands.

En ekki gleyma
að gefa mér frið
til að sofa milli loftárásanna.

Búðu svo um mig
í bæli falsöryggis
og breiddu yfir mig
vernd fjarlægðarinnar

Gefðu mér stríð
svo ég megi vaka,
en gefðu mér frið
svo ég fái að sofa.
 
Haukur Már Hilmarsson
1983 - ...


Ljóð eftir Hauk

Stæ 303
fönn
ég sá þig sumarsvanur.
Ástkæra heimsveldi
dula haustsins
leifarnar af þér
veturinn kom
einangrun
Áning
Hríð í sólskini
Markaðsverð