Einhvern veginn
Einhvern veginn þá dregur hafið mig ekki til sín
heldur er eins og ég verði frekar
með skipstjórastæla í þægilegum sófum
víðs vegar um borgina.
Götuvitarnir segja mér oft hvert skal stefna
einnig segja þeir mér stundum
hreinlega hvar ég er.
Öldur ljósvakans gera mig stundum
sjóveikan en stundum sofna ég værum svefni
við veðrið og hinar
ýmsu fréttir af því.
Já ég er svo sannarlega fæddur
kapteinn því þegar ég
ákveð eitthvað þá
labba ég fyrst yfir
tjarnarbrúna og læt
síðan hina ýmsu háseta
borgarinnar
hreinlega stjana við mig
reyndar er ég ekkert sérstaklega vandvirkur
með höndunum, en hef afar næmt auga
svo að þegar ég fer að fiska
þá tek ég yfirleitt með mér
tvo til þrjá
þaulvana netamenn.
Svo drekkum við
náttúrulega tvöfalt
á við landkrabbanna
til þess að
gleyma því
hvað sjórinn getur
verið ískaldur.
Ástin hrellir mig ekki
frekar en helvítis steinbíturinn
en stöðumælavörðurinn sér oft
um það að
beina mér frá brautum
þessarar ástar sem landkrabbarnir fá gjarnan á hvor öðrum.
Ég get þó gengið hnakkreistur um
í líki frændans
og fæ þá gjarnan póstkort
úr pakkaferðum fjölskyldunnar.
Já sjómannslíf er ekkert grín.