Öll konan
Það er dagrenning í göturæsunum vætlar vatn; ég er atvinnulaus, léttur á því og ég elska þig með hár úr þér vafið í naflakuskið –dreg hárið úr flækjunni, set það upp í mig bít í sundur og gleypi þó hvorki sé það gott né þægilegt

Hún las aldrei bækur en hann þuldi fyrir hana valda kafla og góð ljóð –heilu vagnhlössin af húslestrum– hún sofnaði ekki annars heldur lá andvaka –henni blæddi stundum með augun blómguð; blæddi rauðsprungnum vakandi glyrnum drafandi svefnblálituðum vörum í morgunsárið og þegar eilífðin pírði augun sást merla á kistulokið marargrænt og jarðarfararsöngvar ræsktu sig –hún var ekki feig sjáðu til– þegar svartholið féll saman inní kulnaðar taugar nýhilistans, hins nýja sveins –féll þar tómið inní og um sjálft sig– og þau (tómin) gerðu ekki lengur upp við sig hvenær kona lifir og kona lifir heldur skelltu glösum framræstu blóði Appolons –því dó nokkru sinni kona? Ég man ekki lengur hvernig ljóðið endar. . .

Og hvað er ég svo við enda dags? þegar rokið hefur skriðið aftur oní gjallarhornið og nætur í lestum með konum á lendum eru alheimurinn og allt að rassskella skáldið með fjaðurbrúskum í indælu –það stirnir á blómið í hári þér –hunang drýpur hunang og þú dóst ekki lengur heldur lifðir en þér leiddist stundum og veltir við steinunum í fjörunni hvar skrifað stóð í þarann: „Var hvað ekki hvenær hvers virði?”

Æið í lok mánaðar klýfur fjöllin í herðar niður með berum handarjaðri –andartak við andlok og kistan sunkar niður til helvítis –brennur viður brennur! maður brennur! kona! og augnablikið drukknar í eilífðinni þegar enginn drýpur höfði í sorg dýfir höfði í hafið þar sem hafið lognar og ruggar; rennur ekki því hvergi sést til lands
Það er ekki slæmt það er Gott og Gott og Gott –jafnvel Betra svona fyrst á morgnana en síðar er náttar og maður/kona liggur eitt á koddanum í nýfallinni horardögg –því það er svo ljúft að gráta í myrkrinu þegar maður/kona heyrir ekki handa sinna skil fyrir skítalyktinni; æ það dropar á og gárar óþrifið dagstofugólfið.

Þvaður! Bull! Þvæla! Tvatl og ófrjóir spádómar! Gröf? eða Dauði? eða Eilífð? Ekki orð! Engin orð að ætlast minna skilninga tíma til að átta sig . . . Rugl! Lærði aldrei að heyra þessi orð utan hugtaka aðal abstraksjóna (sé ekki í sjálfum mér hugsun, kem að landinu handan svartholsins þar er ekkert ég sé ekkert hafi ég nokkru sinni kunnað það kann ég það ekki lengur; erum við villtir, vinur? það er margt að hræðast en hafðu samt ekki áhyggjur því hér er hvorki ég né þú til að gera okkur mein.)

–(deyðu)

Sagðist skyldu yrkja mig í örmum þínum og elska mig í ljóðum þykkpúlsandi stríðljóðum enda heimsenda bara fyrir mig þegar ég var hjá þér – (hvíslaðu, hvíslum) – svo blikkaði ég augunum og þú tókst oní þig typpi og tussur með slef og sæði krampasafa orgasmíska gleði gleiða drusla niður kinn niður höku niður háls niður brjóst niður kvið oní nafla þar sem hvíldi hárið í naflakuskinu. . .

–(hvíslaðu)

Hér er þrotinn dagur. Hér er síðasta orðið í ljóðinu sem enginn man hvernig endar. Hér er ég kominn aftur uppúr gjallarhorninu.
 
Eiríkur Örn Norðdahl
1978 - ...
Úr nýútkominni ljóðabók, Heimsendapestir. Haná má fá kaupa með því að senda póst á netfangið nyhilling@hotmail.com (og fá þá frekari upplýsingar).


Ljóð eftir Eirík Örn Norðdahl

Öll konan
Esjan (með allt á hornum sér)
Bróðir minn (e)
Job af skáldi
Sexær drápa fyrir Sölva Björn Sigurðarson -ort undir finnskum tregahætti
Nafnlaust
Í leikhúsi (drög að frumvarpi)
Tígrar eru töff
Glápt
Ástir og ananas
Að frelsa heiminn
Ekki þessi orð
Hver má muna sitt fífl fegurra?
...og orðið var Clint
Heimsendapestin
[Nafnlaust] nr. 2
Varir skáldsins
Það er skuggsælt bakvið skítinn
Gull
Maður ríður vini sínum