Höfuðskepnur
Ég og þú
við erum höfuðskepnurnar

Ég sat til fóta þér
Sígarettan
stinn milli fíngra mér
var viti, og ég
var sætröll

Sængin var jökull
Fellíngarnar
voru gjár og sprúngur
Þú
varst eldurinn eilífi
undir jökulbúngunni

Við vorum höfuðskepnurnar

Svolitla stund
sat ég hljóður
Glóðin í sígarettunni
huldist ösku. Það fennti
á glugga vitans

Skjótt skipast veður í lofti:
Særinn
ruddist á land

Ég og þú
Við erum höfuðskepnurnar  
Dagur Sigurðarson
1937 - 1994
Úr bókinni Hlutabréf í sólarlaginu.
1958.
Allur réttur áskilinn Sigurði Dagssyni Thoroddssen.


Ljóð eftir Dag Sigurðarson

Sjálfsmorð
Geirvörtur (Til Möggu)
Besta orðið mitt
Sæla
Society Club
Vor á Sikiley
List = lifrarpylsa
Losti
Ástarjátning
Þína skál Reykjavík
Þjóðhátíð
Höfuðskepnur
Rós
Kvenmannsleysi
Haust
Mynd eftir barn (20x25 cm., blýantur og vaxkrít.)