Ekki þessi orð

Prologus

Og hann sté inn...

og hann leit til beggja hliða

haugur af dagblöðum á aðra hönd og opin dolla af gamalli kotasælu á borðinu hann stakk annarri hendinni í vasann og dró fram – lokað í lófa – uppstrílað dómadagsljóð sparifatakvæði fyrir brennandi kirkjur óð til blæðandi klassahóru (hún var á síðasta snúningi og átti skilið nokkur falleg orð til að deyja frá brauðstritinu – átti skilið falleg orð eins og aðrir sem kikna ekki á vaktinni) opnar lófann svo efsti dagur sprettur af stað skiptilykill og ást og kebab og rútan-sem-fer-alltaf-á-leiðarenda og flögrandi dansandi horna á milli yfir kotasælu og dagblaðahrúgum stíga á tær hvort öðru takast á flug og detta svo einhverntímann standi þau á fætur orðin að föstum lykli og sameiginlegri ábyrgð brauði og hlaðbaknum-til-að-koma-krökkunum-í-skólann ljóðið varla nema kviðlingurinn af sjálfu sér lokað aftur í lófa í vasa sem klappar því varlega breiðir yfir það pappírssnifsi og syngur því þjóðsönginn fyrir háttinn.


I

Heimurinn er allur með öðrum orðum. Ég segi ekki að hann sé fallegri – að sólin setjist hægar eða menn drepi hvorn annan síður að ástæðulausu en ég er allur eitthvað frískari með öðrum orðum dansandi m.ö.o. í átökum tek á takandi á og kann vel við að finna undir fingrum mér nýtt hold og þegar þetta skvapar sér úr greipum mér kemur sólin og sest með öðrum orðum annarstaðar og við náum loks að smeygja á milli okkar þessari indælu kaldhæðni – heimur með öðrum orðum er aldrei beinlínis stöðugur og því ókyrrist ég stundum sjálfur renn á rassinum eitthvað út í buskann-buskann og rek mig í rogastans með höfuðið kyrfilega skorðað milli allt annarra brjósta en ég er vanur kæfi mig næstum við að reigja á mér höfuðið og tóna frygðarlega „Elskan mín hóran mín brostu eða ég læt af látunum og fer.”


II

Æ öll þessi ha?-hamingja er mér ekki eðlileg.
Þetta er bara veröld.
Hún er meira að segja vond og ljót og full af misskilningi og reglugerðum.

Freiheit og libertad eru mín en hagsýnustu menn eru sammála um að einkaaðilar séu mun betur til þess verks búnir að reka frelsið en fólk almennt – langar í freundin þar sem kærustur duga ekki lengur.


III

Iss bara veröld þó þeir beri hana öðruvísi fram. Iss piss.

Þroskasaga?

Það er ekkert til að tala um sem ekki er þroski.

Nema hégómi
nema rólegheiturnar og ég
í samræðu við hinn upphafna sjálfan mig
óska mér holds og óska því svo jafn harðan burt.

Ástarljóð?

Ja... nei. Þroskasaga.

Í gegnum kóngana þrjá, granna feita og litríka Búdda
í hold saman á blístrinu í heimsendapúlsandi apókalypsó í myrkrinu og þögninni á klúbbunum þegar ég get ekki talað við fólk.

Hyglum við dýrinu? Er það þá ekki bara ágætt. Svona fyrst það er mennskt.


IV

Niðri á jörðinni
í laut sem rennur undan snjó
í maí komandi
talar sólin til mín án málalenginga
breimar og hvíslar:

„Ef þú brosir ekki linni ég látum og fer. Brostu hóran mín.”

Kom óboðin óforvarendis í einskis boði og setur fram kröfur af öllum tegundum en þverneitar að vera meðfærileg sjálf: „Þú getur ekki átt mig!” eins og einhver vitlaus menntaskólastelpa í tilvistarkreppu. Auðvitað get ég átt þig! En ég svara: „Hérna... sól... uhhh... sól... uhh... hérna.... skín á mig?” sposkur og vona að hún kunni að meta íslenskan kraftaskáldskap og fyrirgefi mér loks og að lokum.

V

Gírugt barn að rífa heiminn úr höndum þér?
–Krass!

Og heimurinn (finnst þér) skælast og skekkjast að öðrum orðum?
–Krass! Krass!

Honum vindur upp og niður hringiður af kringlfimi skoppandi flögrandi krass! það stenst ekki að heimurinn sé skopparakringla skopparakringlur þurfa undirstöður og jafnvægismiðju krass krass!

Barnið leikur sér að hjala krass við umhverfið öskra og skíta til skiptis særa fram krass óróa yfir rimlarúminu og slefa yfir rúmteppið og hlær svo krass að öllu saman.

Gleymdu aldrei að viljirðu kenna barninu að forðast eldinn, þarftu fyrst að brenna barnið. Byrgirðu brunninn drepumst við öll úr þorsta. Að gera heiminn barnheldan er að eyðileggja heiminn.


VI

Eru þessi orð ort í eilífðina? Nei nei. Og fussumsvei.

Hæst bylur í tómri...!!! og það allt saman.

Það þarf einhver að snúa skortinum í birgðir setja hann á flösku drösla flöskunum á markaðinn með asnann í eftirdragi og selja hann ódýrt. Þú vilt virkilega ekki vita hvernig þessu lýkur.


VII

Og hvaðan kemur þessi hvöt til að vera með, frekar en á móti, frekar á móti en með. Er það líka hjarðhugsun ef við syndum saman á móti straumnum?

Og kannski rofnar einbeitingin einmitt hér í þessum ós sem uppsprettan sá í hillingum og svörin sökkva á kaf í froðuna án þess að spurningarnar hafi látið sjá sig sökkva sökkva loksins brosandi hóran mín elskan mín loksins brosandi.


 
Eiríkur Örn Norðdahl
1978 - ...
Úr ljóðabókinni Nihil Obstat (Nýhil, 2003). kolbrunarskald@hotmail.com


Ljóð eftir Eirík Örn Norðdahl

Öll konan
Esjan (með allt á hornum sér)
Bróðir minn (e)
Job af skáldi
Sexær drápa fyrir Sölva Björn Sigurðarson -ort undir finnskum tregahætti
Nafnlaust
Í leikhúsi (drög að frumvarpi)
Tígrar eru töff
Glápt
Ástir og ananas
Að frelsa heiminn
Ekki þessi orð
Hver má muna sitt fífl fegurra?
...og orðið var Clint
Heimsendapestin
[Nafnlaust] nr. 2
Varir skáldsins
Það er skuggsælt bakvið skítinn
Gull
Maður ríður vini sínum