Kossinn
Hjartað varð undir í ójöfnum leik
er áttust við þrá mín og kvöðin,
blekkti mig staðfestan, styrk eins og eik
því stofninn hann skildi ei blöðin.

Er kvaddi mig austrið með ávölum svip
yfir féll haustmyrkrið svarta,
grimm herti einsemd hið ískalda grip
um eldinn í laufinu bjarta.

Upp ég af rótunum reif mig og sleit
ráfa nú, stefnulaus vera,
reyni að kynnast einhverjum sem veit
hvað mér er ætlað að gera.

Mig grunar ég leitaði langt yfir skammt
leiddur af ábyrgðarþunga,
hjá austrinu held ég að hefði lært jafnt
að horfa á drenginn minn unga.

Lífið það snýst um að snapa sér yl
við snertingar hvíslandi vara,
lygna svo augunum aftur þar til
aldrei þig langar að fara.
 
Rúnar Þór Þórarinsson
1973 - ...
Ljóðið er samið til fjölskyldu minnar og tileinkað feðrum sem neyðast til að dvelja löngum stundum fjarri fjölskyldum sínum.


Ljóð eftir Rúnar Þór Þórarinsson

Sunnudagsnótt
Í djúpinu...
Kviknun
Litla stúlkan við tjörnina
Gestur
Bensín
Kossinn
Hljóðfæraleikararnir
Íshjartað
Trúfélag hf.
Enn einn dagurinn
Helena missti af skipinu til Heidelberg
Samantekt