Hljóðfæraleikararnir
Eftir áralangar æfingar
og þrotlausar tilraunir
tókst það.

Við sömdum lag handa heiminum!

Það kviknaði í litlu herbergi
og hljómaði strax vel
en með tímanum fór það óvænt
fram úr björtustu vonum.

Textinn hófst á óskiljanlegum
samhengislausum hávaða
en í hægum takti
komu orðin eitt og eitt
undursamleg og heillandi
í óstöðvandi stígandi.

Aðbúnaðurinn var ítarlegur
enda hvergi til sparað
og er það komst loks á markað
elskuðu allir það og dáðu.

Það flutti á vinsældalistana
og fjarlægðist okkur
en hvenær sem það hljómaði
í útvarpi eða sjónvarpi
á vörum annarra
eða sem minning úr hugskoti
bræddi það hjörtu okkar.

Tilbrigði við stefið fylltu heiminn
bergmál fortíðarinnar varð
metsöluplata morgundagsins,
lokasinfónía hljóðfæraleikaranna.

Og við lifum
að eilífu
sem tónlist.
 
Rúnar Þór Þórarinsson
1973 - ...


Ljóð eftir Rúnar Þór Þórarinsson

Sunnudagsnótt
Í djúpinu...
Kviknun
Litla stúlkan við tjörnina
Gestur
Bensín
Kossinn
Hljóðfæraleikararnir
Íshjartað
Trúfélag hf.
Enn einn dagurinn
Helena missti af skipinu til Heidelberg
Samantekt