Drottning ljónanna
Úr ríki drungans
leita ég að útgönguleið
og hef lengi gert
en skuggar fortíðar
krókódílar og hýenur
hamla för minni

en viti menn
þarna flýtur trjádrumbur hjá
niður eftir ánni
og ég stekk á hann
og tek mér far
án þess að skuggarnir nái taki á mér

og villidýrin fylgjast með bráð sinni
hverfa í átt að Ljósuklettum
þangað sem þau geta ekki
fylgt mér eftir
því þau eru hrædd við hið góða
hrædd við þig

himinlifandi flýt ég
niður eftir ánni
og allt verður bjartara
fegurra eftir því sem á líður
jafnvel fuglasöngurinn
hljómar glaðlegur enn á ný

og loks sé ég þig
bíða mín á árbakkanum
Drottningin mín
glæst í gullnum roðanum
með órætt bros
og blik í augum

og er ég nálgast þig
slengir þú út hramminum
veiðir mig blíðlega upp á bakkann
læsir létt í mig klónum
og býður mig velkominn

og ég kem ekki upp orði
því ég veit
að takmarki lífs míns
er loksins
loksins náð
ég er kominn til þín
kominn til að vera

og aldrei skein sólin mér skærar
en á brávöllum Ljósukletta
þennan dag.

 
Þorsteinn Óttar Bjarnason
1966 - ...


Ljóð eftir Þorstein Óttar Bjarnason

Hvað er ást?
Vargá
Þjófar á nóttu
Ástarfleyið
Kópavogslækurinn
Tóbak
Vonlaus vakt
Alltaf á ferðinni
Kaffi í höfnina
Heitur blástur
To a beautiful stranger
Rýr lamadýr
Lone star
Drykkjuvísa
Óendanlega
Drottning ljónanna
Frjáls álagning
Flæðarmál
Spaðahjörtu
Spretthlaup
Vinur
Í ræsinu við Rauðará
Einu sinni var í Ameríku
Jólakveðja
Blóðrjóður
Fiðrildi
Daufar sálir
Örendis
Nýársdagur
Bernskuminning
Rakarinn á ströndinni