Blekking
Ég gekk eitt sinn í myrkri.
Hvert á fætur öðru
réðust skrímsli á mig
í efni og anda
og drógu úr mér allan mátt.

Ég gekk fagnandi móti ófreskjunum,
þekkti lítið annað.
Ætíð bauð ég fram hina kinnina
í vonum að sársaukinn
umbreyttist í gleði.

Stundum tókst mér að blekkja mig,
hélt að svona væri lífið.
En við hvert skref sem ég tók
sökk ég dýpra niður í sandinn
og furðaði mig svo á því
hvers vegna það væri svo erfitt
að lyfta fótunum
og stíga næsta skref.

En þá komst þú.
Við vorum eins.
Við vorum ekki ófreskjur.
Við vorum ekki skrímsli.
Við vorum sakleysið
og ástin.

Saman þóttumst við hífa hvort annað
upp úr kviksyndinu
og svífa áfram
á bleikum skýjum ástarinnar,
hátt á himni
þar sem illskan náði ekki til okkar.

En það var aðeins blekking.
Ég skildi svo að þú varst einn af þeim.
Ég sá að þú varst skrímsli
og þú sást að ég var ófreskja
og við börðumst móti hvoru öðru.

Saman börðumst við á móti lyginni,
lyginni sem við vorum sjálf.
Sundur börðumst við gegn sannleikanum
til þess eins
að geta sameinast aftur í lyginni.

Ef við aðeins hefðum getað
litið okkur sjálf í spegli
og viðurkennt raunveruleikann
áður en allt fór úr böndunum
og ég drap þig
og þú drapst mig...

En hvernig gæti sannleikurinn
hafa sigrað lygina
án þess að hún gufaði upp?
Og lygin var við,
lygin var ástin.
Og hvað er þá eftir til að halda áfram?

Ekkert.  
Hulda Sif Ólafsdóttir
1982 - ...


Ljóð eftir Huldu Sif Ólafsdóttur

Dans ástarinnar
Lífsins tónlist
Ljósið í myrkrinu
Enginn veit...
Mánaskin
Minning um sumarást
Ströndin
Að spila á lífið
Af eða á?
A Hopeless Case?
Ef þú elskaðir mig...
Spegilmyndin
Strákastelpa
Raddirnar
Blekking
Ef ég...
Sárar minningar
Haltu mér, slepptu mér
Missir