Bjór
Þú móðurtungan mæra,
sem mér er hjartakær!
Ég man það máske betur
en margt, sem skeði í gær,
hið fyrsta af öllum orðum,
er orð ég mynda fór,
var orð, sem aldrei gleymi,
en orðið það var: Bjór.

Svo flúði ég feðra grundu,
mér fannst þar allt of þurt;
að leita fjár og frama
ég fullur sigldi burt.
Af hafi hingað komnum
mér heimur birtist nýr;
þá lærði ég orð í ensku,
en orðið það var: „Beer“.

Og fyrr en fjandann varir,
ef fullur sting ég af,
og dreg á kalda djúpið,
í dauðans kyrrahaf. -
Og hvað, sem helst að drekka
í heljarsölum finn,
er bjórkút best að grafa
á bautasteininn minn.  
Káinn
1860 - 1936


Ljóð eftir Káin

Fónið
Tvö prósent
Vatn og vín
Hjálp
Reiður
Snótin
Bjór
Lengi getur vont versnað
Gigtarsálmur
Ávarp
Ég hef ei auðinn elskað
Úr þreskingunni
Haustvísa
Í og á