Og rykið féll
Ég vaknaði í regninu eftir síðustu helsprengjuna.
Það eina sem ég mundi voru mánuðir, ár ófriðs.
Ærandi þrumur sem skáru lygar úr eyrum mínum.
Hvítglóandi eldur sem brenndi vanann úr húð minni.
Svíðandi stormur hreif með sér síðustu slitrurnar
af því sem augun vildu aðeins sjá.

Ég vaknaði nakin, húð mín rifin og viðkvæm, hreinsuð, ný.
Hversu lengi lá ég í rústum tilvistar sem aldrei átti stað?
Þegar óvarin augu mín vöndust nýju ljósi og ókunnum formum,
reyndi ég að standa í óstyrka fætur. Þeir höfðu misst sinn
gyllta fótbúnað, sem áður hefti för með þungu prjáli.
Hvasst grjót skar mjúkar iljar, en bar með sér létti. Aflausn.

Ég ráfaði lengi um og skildi ekki hvers vegna borgin hrundi
eins og undan eigin þunga. Lengi rótaði ég í brotnum speglum
sem varpað höfðu afskræmdri mynd og leyft mér að sofa.
Loks þegar ég fann, djúpt í rústunum, spegilmynd sjálfrar mín
afskræmdrar, heftrar, falinnar, fullrar af ótta, fann ég fræið
sem öllu kom af stað. Og það spíraði í raunveruleika mínum.

Líf!

 
Heiða Dögg Liljudóttir
1975 - ...


Ljóð eftir Heiðu Dögg Liljudóttur

Ófullburða afurð IV-B
Skuggi læðist
Minni Tröllastelpunnar (Til afa)
Og rykið féll
Seiður frá dóttur til móður
Þakkargjörð hennar sem efaðist
Sú sem á undan fór
Texti sem veit ekki hvað hann vill vera
Lífsflötur
Kvöldar að
hlutarins eðli samkvæmt
úps
Fylgjan
Baldintátu bregður í brún....
vökuljóð úr kjallaraglugganum
Hann Enginn
Holdskefla
Einkamálaauglýsing/sniðugar tækifærisgjafir
Heill horfna garðyrkjumanninum
Án titils
Augnablik
Innviðir II
Fyrsti snjórinn
Án titils II
Vorfórn - dimmasta stund fyrir dagrenningu
Bara ég og sjórinn
Tilbrigði við ástarsorg
Hreingerningarpúkinn spáir í spilin
Misst af æfintýri á gönguför (aftur!)
Aprílnótt
Eitt af samhengjum hlutanna
Krossgötur