Áminning
Andrá,
sem stundum, eins og nú,
virðist varla ætla sér að enda.
Þá persónugeri ég tímann,
kötturinn verður trúnaðarvinkonan mín
og tunglið fjarlægur staður sem vert væri að heimsækja.
Flóttinn kallar, hvert kemstu núna,
lengra frá þessum minningum
svo það verði enn lengur að bíða eftir næstu andrá.
Hvaða minningum,
sumar held ég séu bara minning um líðan
sem tengist ekki stað né stund,
allavega ekki í þessu lífi,
líðan sem þá var of sterk til að ég gæti meðtekið hana
og viðurkennt.
Því kallar líðanin nú sem oftar aftur á mig
og sárbiður um viðurkenningu sér til handa.
Ég er hrædd,
held samt fast í vonina um að ég standist þetta,
bít á jaxlinn og bíð,
leiði hugann að einhverju öðru,
hvernig ætli veðrið sé á Flórída núna,
hvernig ætli það væri að búa í Danmörk,
hvers vegna á ég í svo miklum erfiðleikum
með að hleypa morgninum inn í líf mitt.
Þar kom það aftur,
minningin,
eða skyldi ég segja áminningin,
um að eitthvað er ógert í kotinu,
eitthvað sem ég hefi sópað of vel undir teppið
því nú finn ég það ekki.
Skyldi mér takast að lyfta mottunni nógu vel og lengi?
Skyldi ég læra að þakka fyrir sólina frekar en að sakna tunglsins?
Er þetta kannski afsökun hjá mér
til að horfast ekki í augu við það sem er mér næst.
Hvað er mér næst?

EBM  
Eyrún B
1979 - ...


Ljóð eftir Eyrúnu

Áminning
Draumur morgundagsins
Frosin mynd
Lítil sál
Fórn fagurgalans
Brosið
Barnsins augu
Tímaleysi
Nóttin
Dagur fullkomnunar
Er sú trúin til
Ungdóms einlægni
Hugsun vonar