SAGAN Í HLEININNI
Í Hleininni var hlúð að bát
sem hlaðinn kom að landi,
ef aldan var þeim eftirlát
og ekkert varð að grandi.
Er klöppina yfir kæna dróst,
kjölurinn særði steininn.
Ummerki það enn er ljóst
sem öldruð geymir Hleininn.

Þarna út tók afa minn
sem oft við brimið háði
baráttu um bátinn sinn
er barðist fyrir láði.
Sitja varð hans sonur hjá
er sunnan brimsins löður,
hjálparvana honum frá
hrifsaði gamlan föður.

Menn hafa til sjávar sótt
síðan fyrr á öldum
Dæmdir verið um dimma nótt
og dáið á beði köldum.
Brotið hafa bátinn sinn
er bjargið kaus þeim mæta,
þegar leyfði ekki lendingin
lagi þeim að sæta.

En þrátt fyrir að þungur sjór
oft þreytti sterkar hendur,
línuafli og lúða stór
í lokin eftir stendur.
Soðning þegar sultur að
svarf, í litlum kofa.
Og gleðin við að gefa það
sem Guð þeim vildi lofa.  
Ólína Gunnlaugsdóttir
1962 - ...
Ljóðið fjallar um ákveðinn atburð í svokallaðri Hlein á Hellnum á Snæfellsnesi, en þar má ennþá sjá kjöför bátanna í klöpp við sjóinn.


Ljóð eftir Ólínu Gunnlaugsdóttur

GAMLA KONAN
SUMARÁST
VOR
HÚS
BÍDDU MÍN Í GARÐINUM
VEGGURINN
GLEÐI
ÖGNIN
KELLINGIN
SAGAN Í HLEININNI
FÍFUKOLLLUR
FRELSI
KVÍÐI
Við
Gættu þín
Una
Bæbæ
JÓLASTJARNAN
SYSTURNAR ÞRJÁR