Spegilmyndin
Ég stend fyrir utan
dyrnar þínar
og þrái að opna
og óska þess
að þú heyrir
hugsanir mínar.

Hvern þann dag
er ég lít þig augum
vaknar í brjósti mér
ástarþrá
og ég vona
að þú heyrir
hjarta mitt gráta.

Ég kreppi hnefann
og drep á dyr
en enginn svarar
og ég vona
að þú heyrir
í mér.

Ég tek í húninn
og opna hægt
og sé þig þar
fyrir innan
og vona
að þú takir
eftir mér.

En þú sefur
værum svefni
undir sæng
og ég tipla á tánum
til þín ofurhljótt
en vona
að þú vaknir
við hljóðið.

Ég sest
á rúmstokkinn
við hlið þér
og fylgist með þér
óska mér þess
að þú verðir var
við augnaráð mitt.

Þú opnar augun
og lítur upp
ég brosi til þín
en þú sérð mig ekki
og ég þrái
að þú verðir mín var.

Þú sest upp
og varir mínar
nálgast þínar
en ég finn ekki fyrir þér
þegar ég kyssi þig
því þú ert staðinn upp.

Ég elti þig
og leið þína
liggur inn á bað
þú tekur upp
raksápu
og lítur í spegilinn.

Ég lít líka
í spegilinn
og horfi á þig.

Ég óska þess
að þú heyrir í mér
vona að þú sjáir mig
þrái snertingu þína…

En ég er ekki þar.
Ég er ekki í speglinum
-eins og þú.  
Hulda Sif Ólafsdóttir
1982 - ...


Ljóð eftir Huldu Sif Ólafsdóttur

Dans ástarinnar
Lífsins tónlist
Ljósið í myrkrinu
Enginn veit...
Mánaskin
Minning um sumarást
Ströndin
Að spila á lífið
Af eða á?
A Hopeless Case?
Ef þú elskaðir mig...
Spegilmyndin
Strákastelpa
Raddirnar
Blekking
Ef ég...
Sárar minningar
Haltu mér, slepptu mér
Missir