Sárar minningar
Ligg ein úti í móa,
stari upp í himininn,
gráir rafmagnsvírar
strengdir milli skýjanna,
stráin blakta
við andlitið á mér.

Ég ligg ein,
græt gamlar minningar
sem taka á sig form
í litlausum skýjunum.

Fallinn engill,
fugl án vængja,
saknar hreiðurs síns,
öryggis verndandi föður
og elsku móður
er umlykur
og rekur allan ótta á braut.

Rifin úr skýjunum,
svívirt af svörtum ára,
sem í sakleysi og sekt,
blindaður af lygi
sá ekki sólina
fyrir ljósinu
og slökkti það.

Í fögru himinhvolfinu
ummyndast ljótleikinn
í sorg
og tárin renna.

Fjötrum bundin
var rós sú svert
og bliknaði roðinn
er laufin,
slitin af sterkum stilknum,
féllu til jarðar
og stilkurinn visnaði,
aðskilinn frá hjartanu.

Í skýjahnoðrunum
sá engillinn spegilmynd sína...

Úr visnuðum stilknum
reis naðra
og skreið í skuggan
til að gráta beiskum tárum.
Því hún freistaði freistarans
og myrkrið var hennar sök.

Samt renna tárin í grasið...  
Hulda Sif Ólafsdóttir
1982 - ...


Ljóð eftir Huldu Sif Ólafsdóttur

Dans ástarinnar
Lífsins tónlist
Ljósið í myrkrinu
Enginn veit...
Mánaskin
Minning um sumarást
Ströndin
Að spila á lífið
Af eða á?
A Hopeless Case?
Ef þú elskaðir mig...
Spegilmyndin
Strákastelpa
Raddirnar
Blekking
Ef ég...
Sárar minningar
Haltu mér, slepptu mér
Missir