Frost á Grímsstöðum
<div style="width:256" align="justify">&nbsp;&nbsp;&nbsp;Ég ligg í rúmi mínu, og er í góðu skapi. Það er frost á Grímsstöðum - 20 stiga frost. Seinasti mómolinn er orðinn að ösku, það er jarðbann og heyleysi, presturinn vill ekki hjálpa, hefur nóg með sig, nær að setja betur á.
&nbsp;&nbsp;&nbsp;20 stiga frost á Grímsstöðum framleiðir 20 skáldsögur. Tímaritin verða fljótlesnari.

&nbsp;&nbsp;&nbsp;Ég klæði mig, fer út, og sé skósmið. Ég hleyp til hans, og hringsný honum:
&nbsp;&nbsp;&nbsp;Það er frost á Grímsstöðum - 20 stiga frost.
&nbsp;&nbsp;&nbsp;Hann tekur upp blað og bendir.
&nbsp;&nbsp;&nbsp;2 stig, segir hann, og fer leiðar sinnar.

&nbsp;&nbsp;&nbsp;Ég spyr þig, ó, skósmiður.
&nbsp;&nbsp;&nbsp;Ert þú í heiminn kominn, til þess að þú berir sannleikanum vitni? Hvar er vitnastefnan þín? Hver áminnti þig um sannsögli?
&nbsp;&nbsp;&nbsp;Ólánsgarmur ertu. 20 menn skrifa skáld- sögu í dag. 20 menn trúa því, að 20 stiga frost sé á Grímsstöðum.
&nbsp;&nbsp;&nbsp;Mikil er ábyrgð þín.

&nbsp;&nbsp;&nbsp;Ég þakka þér, skósmiður. Þegar tímaritin koma út, gerist ég ritdómari. Ég skrifa:
&nbsp;&nbsp;&nbsp;Pappír og prentun í besta lagi. Frágangur allur góður, og bækurnar hinar eigulegustu - einkar hentugar til tækifærisgjafa. En það skal tekið fram, að sögurnar eru byggðar á misskilningi. Umræddan dag var aðeins 2 stiga frost á Grímsstöðum.</div>  
Jón Thoroddsen
1898 - 1924
Úr bókinni <a href="http://www.jpv.is/?grein_id=250&parent=7" target="new">Flugur</a>.
JPV, 2002.
Öll réttindi áskilin.


Ljóð eftir Jón Thoroddsen

Lítill fugl
Perlan
Promeþevs leystur III
Promeþevs bundinn II
Promeþevs I
Vita Nuova
Ástarsaga
Tómas
Tjaldið fellur
Örvæntingin
Hjónaband
Kvenmaður
Lauslæti
Eftir dansleik
Frost á Grímsstöðum
Hatturinn
Formáli