Vita Nuova
Úti er dagurinn blár og bjartur, en inni situr sorgin og segir fanganum sögur. Skuggarnir þyrpast í hornin og hlusta.
Sólin hækkar á lofti. Geislarnir, sem skjótast dansandi gegnum járnvarinn gluggann, kyssa burt myrkrið úr klefanum.
Einn þeirra vogar sér lengra en aðrir. Hann dansar eftir gólfinu, og kyssir á fótinn á Oscari Wilde. Fanginn lítur upp og undrast. Sorgin hættir að segja frá og brosir.
Oscar Wilde stendur upp og gengur að glugganum. Hann horfir á litlu, bláu röndina, sem fangarnir kalla himin. Og hann sér hvítt ský þjóta eftir himinhafinu.
Undarlegur söngur vaknar í huga hans. Hann er útlagi, sem á heima handan við hafið. Þar bíður hans eitthvað, sem hann elskar.
Þú, sem ég elska.
Ég hrindi bátnum úr nausti, því ég er sjúkur af heimþrá. Og ég hrópa til þín yfir hafið:
Með hvítum seglum stefnir hann að ströndum þínum, útlaginn, sem elskar þig.  
Jón Thoroddsen
1898 - 1924


Ljóð eftir Jón Thoroddsen

Lítill fugl
Perlan
Promeþevs leystur III
Promeþevs bundinn II
Promeþevs I
Vita Nuova
Ástarsaga
Tómas
Tjaldið fellur
Örvæntingin
Hjónaband
Kvenmaður
Lauslæti
Eftir dansleik
Frost á Grímsstöðum
Hatturinn
Formáli