Promeþevs leystur III
Uppi í Kákasusfjöllum liggur Promeþevs í fjötrum. Hann liggur í kross, og hlekkir hans eru úr járni og gulli. Og járnið er atað blóði. Örninn situr á bringu hans, og heggur lifur hans dag og nótt.
Ungur, fallegur maður fer að hitta Promeþevs. Hann vorkennir honum og spyr: Viltu að ég leysi þig?
Og Promeþevs segir já.
Maðurinn horfir á örninn, og örninn hefur sig til flugs. Síðan leggur maðurinn höndina á herðar Promeþevs og segir: Fylgdu mér.
Og Promeþevs stendur upp og fylgir honum.
Þeir ganga lengi yfir urðir og auðnir. Að lokum koma þeir að eyðilegri hæð. En þá er maðurinn horfinn.
Promeþevs verður litið upp á hæðina. Hann sér kross, sem ber við himin, og á krossinum hangir sá, sem leysti hann.
Promeþevs segir: Þú ert sjálfur í fjötrum.
Já, ég er sjálfur í fjötrum.
Mig gastu leyst. Sjálfan þig geturðu ekki leyst. Hvernig á ég að skilja það?
Ég elska mennina.
Ég skil þig ekki.
Þú varst í fjötrum, af því að þú elskaðir sjálfan þig. Ég hangi á krossi, af því ég elska aðra. Promeþevs, Promeþevs, leystu mig. Stígðu upp á krossinn og leystu mig.  
Jón Thoroddsen
1898 - 1924


Ljóð eftir Jón Thoroddsen

Lítill fugl
Perlan
Promeþevs leystur III
Promeþevs bundinn II
Promeþevs I
Vita Nuova
Ástarsaga
Tómas
Tjaldið fellur
Örvæntingin
Hjónaband
Kvenmaður
Lauslæti
Eftir dansleik
Frost á Grímsstöðum
Hatturinn
Formáli