Örvæntingin
Vonin var eiginkona mín, en veruleikinn kokkálaði mig. Ég hata hann.

Ég geng upp í kirkjugarð, og leiði lítið barn. Við komum að grafhvelfingu, sem ég hef sjálfur reist. Og ég tala við barnið, sem ég ekki á:
Haltu í höndina á mér, því inn í þessa hvelfingu kemst engin ljósglæta. Hnjóttu ekki um kistur systkina þinna. Áður en dagar, rísa þau upp, og sækja að mér. Vertu góða barnið, og sestu hérna á kistuhornið hjá mér. Ég ætla að reyna að hafa af fyrir mér örlitla stund.
Móðir þín er farin. Það var bjartklædd stúlka, sem brosti. Hún kemur aldrei aftur.
Hún kom í síðasta sinn, og leiddi þig.
Kysstu pabba, sagði hún.
Ég spratt upp, og kreppti hnefana:
Ég á hana ekki, hann á hana - hann, sem ég hata.
Hvernig á ég að vita, spurði hún.
Skækja, öskraði ég.
Þú tekur barnið að þér. Hún huggar þig, þegar ég er farin. Og hún brosti, eins og hún væri að gera góðverk.
Þegar þú ert farin, sagði ég, og huldi andlitið í höndum mér.
Hún kemur aldrei aftur, og börnin okkar liggja í þessum kistum. Áður en dagar, rísa þau upp og sækja að mér.
Þú ert einkennilegt barn. Þú klappar ekki, þú klórar. Þú kyssir ekki, þú bítur. Og grátur þinn er kuldahlátur.
En samt elska ég þig - elska þig vegna hennar móður þinnar, sem er farin.
 
Jón Thoroddsen
1898 - 1924


Ljóð eftir Jón Thoroddsen

Lítill fugl
Perlan
Promeþevs leystur III
Promeþevs bundinn II
Promeþevs I
Vita Nuova
Ástarsaga
Tómas
Tjaldið fellur
Örvæntingin
Hjónaband
Kvenmaður
Lauslæti
Eftir dansleik
Frost á Grímsstöðum
Hatturinn
Formáli