Lauslæti
I.
Það var fallegur kettlingur með silkiband um hálsinn. Hann hefur stolist út á götu, og þykist geta veitt mýs.
Varaðu þig, kisi. Rotturnar sitja um þig.

Bölvaður kettlingurinn. Ég varaði mig ekki á honum.

II.
Ég geng um göturnar, og mæti mörgum stúlkum. Ég heilsa þeim, sem ég þekki, og horfi á hinar líka, og það vaknar í mér eitthvað skrítið og skemmtilegt.
Það er fiðrildi í lokuðu blómi, og þráir sólskinið.

Ég er eirðarlaus á daginn, og andvaka á nóttunni. Á kvöldin ligg ég hljóður og hlusta. Ég sit um það, en það sér við mér. Ég tel upp að 300, það ásækir mig.
Það er freistandi og lokkandi, eins og ókysst stúlka. Það ögrar til sóknar.

Í gær las ég faðirvorið, en í kvöld þuldi ég nafnið þitt.
Á morgun ber ég í borðið.
Nei, segi ég, og ber í borðið.
Á morgun suðar það og flögrar, og þráir sólskinið.

Ég kyssi þig. Eitthvað flýgur fram á varir mínar. Það er nakið og blygðunarlaust, æsandi og kitlandi, hamstola af fjöri og sigurkæti.
Það er ástarkvæði, og ég flyt þér það óort í löngum, heitum kossi.

Ég kem ekki kl. 8, því fiðrildið er flogið. Ég á enga óskrifaða sögu um hjónaefni í húsnæðisleit.

III.
Hlustaðu á Jakob. Hann hringsnýr hattinum sínum, og talar um þessa kveljandi óvissu.
Sólargeislinn kyssti ölduna. Þannig bað hann hennar, en hún hryggbraut hann.
Sólargeislinn kyssir ölduna. Þannig biður hann hennar, og heimtar ákveðið svar.

IV.
Þú lagðir handlegginn um hálsinn á mér, og ég hallaði höfðinu aftur á bak.
Þú elskar mig ekki, sagði ég. Þú elskar aðeins ást mína, en hún elskar sjálfa sig.
Helltu bensíni á stein, og berðu að eld. Steinninn elskar hitann, en hann brennur ekki.
Horfðu á bálið hans Jakobs. Þú eyddir engu bensíni til þess að kveikja það, því Jakob á nógan hálm.
Hann ber alltaf meira og meira á bálið. Hann á nógan hálm.
Hættu að gráta. Steinninn elskar heit tár, en hann brennur ekki að heldur.
Veturinn er í nánd, og klakahúð kemur á steininn. Þá tæmist brúsinn þinn, en Jakob á nógan hálm.

Ég hitti þig á dansleik og hneigði mig.
Klakahúð er komin á steininn, hvíslaði ég.
En Jakob á nógan hálm, sagði þú, og skaust inn í dansandi þvöguna.
Hann á líka nóga peninga, æpti ég á eftir þér, og vakti hneyksli.

Nú ber jakob hálminn sinn í borðstofuofninn, og stelur undan í eldavélina, þegar konan er úti í bæ.
En brúsinn þinn liggur tómur í sorpinu.
 
Jón Thoroddsen
1898 - 1924


Ljóð eftir Jón Thoroddsen

Lítill fugl
Perlan
Promeþevs leystur III
Promeþevs bundinn II
Promeþevs I
Vita Nuova
Ástarsaga
Tómas
Tjaldið fellur
Örvæntingin
Hjónaband
Kvenmaður
Lauslæti
Eftir dansleik
Frost á Grímsstöðum
Hatturinn
Formáli