Perlan
Ungi maðurinn leitar dýrmætu perlunnar.
Ég er fátækur, segir ungi maðurinn. Gef mér. Ég ætla að kaupa dýrmætu perluna.
Og mikið er honum gefið.
Svo mætir hann þunglyndu stúlkunni.
Gef mér, segir ungi maðurinn. Ég ætla að kaupa dýrmætu perluna.
Þá segir þunglynda stúlkan:
Vei þér, maður. Ég er þjáningin. Ég á aðeins undarlega blómið.
Gef mér, segir ungi maðurinn, og hann þiggur gjöfina.
Þetta er undarlegt blóm, segir ungi maðurinn. Mig verkjar í brjóstið.
Og hann heldur áfram, og mikið er honum gefið.
En hvað ég er ríkur, hrópar ungi maðurinn. Nú skal ég kaupa dýrmætu perluna.
Og hann leitar og leitar, en perluna er hvergi að finna.
Að lokum heyrir hann um vitringinn, sem á dýrmætu perluna, og hann leitar uppi vitringinn.
Sjáðu, hvað ég er ríkur, hrópar ungi maðurinn og fagnar. Ég ætla að kaupa dýrmætu perluna.
Hún selst ekki, segir vitringurinn.
Þá nýr ungi maðurinn hendur sínar og hrópar:
Hvað stoða mig auðæfi mín, ef ég get ekki keypt dýrmætu perluna. Og hann heldur á brott, þunglyndi maðurinn.
Gef oss, segir fjöldinn, og þunglyndi maðurinn gefur.
Gef oss, segir fjöldinn, og hann gefur stórar gjafir.
Svo fer hann aftur á fund vitringsins.
Sjáðu hvað ég er fátækur, segir þunglyndi maðurinn. Gef mér dýrmætu perluna.
Hún gefst ekki, segir vitringurinn.
Þá lítur þunglyndi maðurinn undan í þöglum harmi, en vitringurinn deplar öðru auganu og spyr:
Gafstu allar gjafir þínar?
Já, segir þunglyndi maðurinn.
Gafstu líka undarlega blómið? Þannig spyr vitringurinn.
Þá grætur þunglyndi maðurinn. Hann elskar undarlega blómið.
Jæja, jæja, eigðu það þá, segir vitringurinn.
Ég elska undarlega blómið, hrópar þunglyndi maðurinn. En hvað skal ég með það? Sjá, einnig það vil ég gefa.
Og hann tekur fram undarlega blómið.
En vei, það er vaxið inn í brjóst hans.
Engu að síður kippir hann út undarlega blóminu. Og sjá, milli róta þess liggur dýrmæta perlan.  
Jón Thoroddsen
1898 - 1924


Ljóð eftir Jón Thoroddsen

Lítill fugl
Perlan
Promeþevs leystur III
Promeþevs bundinn II
Promeþevs I
Vita Nuova
Ástarsaga
Tómas
Tjaldið fellur
Örvæntingin
Hjónaband
Kvenmaður
Lauslæti
Eftir dansleik
Frost á Grímsstöðum
Hatturinn
Formáli