Tómas
Í kvöld er ég Tómas. Ég bíð eftir því, að ólgan í sál minni sefist í næturró náttúrunnar.
Ég bíð og ég finn: Hann einn getur sefað hana - Jesús sonur Jósefs. Hann verð ég að hitta.
Ég stend upp, en átta mig svo allt í einu.
Jesús sonur Jósefs, segi ég við sjálfan mig og brosi.
Hann kom í dag. Hann kom gangandi yfir eyðimörkina, og hafði hvorki hatt né staf. Hann þurrkaði svitann af enni sínu með handarbakinu, settist við brunninn, og bað um vatn. Síðan beið hann, þar til fólkið hafði lokið störfum sínum. Þá stóð hann upp og talaði.
Hann var konungurinn, sem koma á - Jesús sonur Jósefs.
Ég heyri fótatak. Einhver er að koma. Ég sný mér ekki við. Ég hef ekki tekið eftir því.
Komumaður nemur staðar við hliðina á mér, og ég lít á hann rétt sem snöggvast. Hann brosir og kinkar kolli - Jesús sonur Jósefs.
Við þegjum stundarkorn. Hann segir:
Þú trúir mér ekki, Tómas.
Nei, þú trúir mér ekki, Tómas, segir hann aftur, og er að fara.
Ég gríp í skikkjuna hans:
Farðu ekki, meistari, farðu ekki. Ég trúi. Ég trúi.
Þú getur það ekki.
Ég trúi. Ég trúi. Ég vil trúa.
Þú getur það ekki.
Ég sleppi skikkjunni og endurtek: Þú getur það ekki.
Hann leggur höndina á höfuð mitt, horfir framan í mig og spyr:
Hver er ég?
Ég þegi.
Hann brosir og spyr: Er ég ekki Jesús sonur Jósefs?
Ég hrekk við: Hvers vegna ofsækir þú mig?
Vertu óhræddur. Einhvern tíma trúir þú mér, Tómas.
Ég vil vera einn.
Ég skal fara, segir hann. Ég hef fundið þig, Tómas. Þú átt eftir að finna mig.
Og hann fer.
Ég ætla að hlaupa á eftir honum, en hætti við það. Ég ætla að kalla, en ég get það ekki.
Ólgan í sál minni sefast ekki í næturró náttúrunnar. Ég horfi inn í myrkrið, og hef upp fyrir sjálfum mér:
Jesús sonur Jósefs?  
Jón Thoroddsen
1898 - 1924


Ljóð eftir Jón Thoroddsen

Lítill fugl
Perlan
Promeþevs leystur III
Promeþevs bundinn II
Promeþevs I
Vita Nuova
Ástarsaga
Tómas
Tjaldið fellur
Örvæntingin
Hjónaband
Kvenmaður
Lauslæti
Eftir dansleik
Frost á Grímsstöðum
Hatturinn
Formáli