Til þeirra sem málið varðar
1.

Vinkona,
Við gengum með hjól um hönd
og fórum með kvæði
Upplifðum saman ókunn lönd
Ræddum saman
í ró og næði
Ungar vorum – vitlausar
Heimurinn við okkur brosti
þegar við einn góðan veðurdag
löbbuðum niður í ísbúð
í sautján stiga frosti

Nú aðskilur okkur láð og lögur
til lengri tíma
Í huga mér er mynd þín fögur
Rödd þína heyri stundum
(í gegnum síma)
Vita skaltu, vina kæra
á mig getur ávallt treyst
Í tímans rás
og hverfulleika
það getur aldrei breyst

Orðin þessi,
meitluð í stein um alla tíð
Og heimkomu þinnar
með eftirvæntingu
ég bíð


2.

Vinkona,
Á rigningardegi í erlendri borg
við hlógum dátt
Gengum um stræti og Torg
í sandölum og hálfum skó
saman í sátt
Sprengdum nokkrar blöðrur
í frumskógi lita
Héldum gleðskap
Þvílíkt partý!
Tveir af því vita

Þegar hugsa ég til þín
yfir stóra hafið
Minning, björt sem sólin, skín
og yljar mér
Á því er enginn vafi
Vita skaltu, vina kæra
mig áttu alltaf að
Í þykku, þunnu
súru, sætu
þú getur treyst á það

Orðin þessi,
meitluð í stein um alla tíð
Og heimkomu þinnar
með eftirvæntingu
ég bíð


3.

Vinkona,
Við erum lauf af sama tré
að vissu leyti, þú og ég
Í þér sjálfa mig sé
Sambærilega
við göngum lífsins veg
Í upphafi var köttur,
ólánsöm læða
Tvær ungar stúlkur lærðu
að lífið er hverfult
Þvílík mæða!

Gjarnan ég minnist þín
og nálægðar þinnar sakna
Söknuðurinn aldrei alveg dvín
En dofnar þó
er góðar minningar vakna
Vita skaltu, vina kæra
fyrir þig er alltaf hér
Ef vantar þig öxl
faðm eða eyra
fúslega færð hjá mér

Orðin þessi,
meitluð í stein um alla tíð
Og heimkomu þinnar
með eftirvæntingu
ég bíð


4.

Vinkona,
Við hlógum þegar enginn annar hló
og hlógum mikið
Langlífi og eilíf hugarró
fylgja eflaust
fyrir vikið
Litlar skátastelpur með poka
röltum upp í fell
Erfitt reyndist augum að loka
í draugagangi
Heyrði einhver hvell?

Nú, þegar þú ert þar
og ég er hér
það er af sem áður var
En á hverjum degi
dvelst hugur minn hjá þér
Vita skaltu, vina kæra
alltaf áttu vin í mér
Þótt tímar breytist
og lífið með
ég verð hér

Orðin þessi,
meitluð í stein um alla tíð
Og heimkomu minnar
með eftirvæntingu
ég bíð


5.

Vinkona,
Á svölunum við sátum
um miðja nótt
Lausn við lífsins gátum
fundum ekki
Af tíma er ennþá gnótt
Manstu daginn þann
er gekkstu til mín?
Það strax ég fann
er þú bauðst mér sæti
vinarhug myndi bera til þín

Þú hélst til náms í öðru landi
og ég er hér
Þótt saknaðargola á mig andi
hef ég til huggunar
minningar af þér
Vita skaltu, vina kæra
eilíf eru þessi bönd
Í lífsins gangi
góðum, slæmum
ég alltaf býð þér hjálparhönd

Orðin þessi,
meitluð í stein um alla tíð
Og heimkomu þinnar
með eftirvæntingu
ég bíð  
Una Guðlaug Sveinsdóttir
1985 - ...
Samið í október 2006.


Ljóð eftir Unu Guðlaugu Sveinsdóttur

Fossinn
(Án titils)
Bið
(Án titils)
Nótt
Mannlegt
Stef
Hér er ég
Bless
Síðdegi
Steyparinn
Mosta
Til þeirra sem málið varðar