Haf og strönd
I. Að nausti

Í vari hvílir fagurt fley
fánum skrýtt í stafni
Bíð ég enn að byr mér gefi
og báran skipi vaggi.
Leitað hef ég lengi skjóls.

Nú mun sigla um höf í höfn
þó hamist norðan stormur.
Í ölduróti og iðuköstum
áfram beiti seglum.
Þá vind á móti í fangið fæ.

Í dag mun heim í naustið ná
og nóttu dimmri gleyma.


II. Hafið

Í ólgandi hafinu
er bátur minn á reki.
Ég hef tapað áttum
og feikist undan
vindsveipum,
í óvæntum stormum
sem sunnan golan blés.
Stormurinn á eftir logninu.


III. Í beitivindi

Rísandi öldur
allt í kring
og ef þær brotna,
brotnar bátur minn.
Í beitivindi
ég leita að lygnu.
Engin landsýn
ekkert var
til að hörfa í.
Hvar brennið þið vitar,
er vísið mér veginn.


IV. Viti

Í fjarska logar viti
og speglar geisla sinn
í haffletinum.
Aldan brotnar
í fjarska,
- stillist veður.
Sætur saltkeimur á vörum,
að baki stormur.
Bátur veltur í óróa
öldubrotsins
og berst að strönd.
Strönd ókunnra lenda.


V. Við strönd

Að strönd þú hraktist
og stefndir að hömrum,
í bjarginu bergmál,
þar sem bíða þín forlög.

Hamrarnir opnast
og hrynur úr bergi,
Skriðurnar falla
það skellur í grjóti.
Eldurinn kviknar
úr iðrum hann þeytist.

Himnarnir hljóma,
þú lendingu nærð,
en bátinn þinn brýtur
báran við klett.


VI. Skip undir seglum

Við lendur þess fjarska
með vitanum bjarta
er færði þér sjórinn,
þín bíður í vari
og bylgjuna kyssir
nýtt skip undir seglum.

Í tunglskini nætur
það titrar hvert borð
er ýfist upp veður,
ólgar þá brimið
og upp lyftist bylgjan,
þú berst út í geiminn
og siglir með stjörnum.


VII. Glitrar

Er barst eg að ströndu
á bláhiminn horfði
í skýjunum skrifað
eg starði á þá stafi.
Legðu að bátnum
ég bíð þín í vari
þú bærir mitt hjarta.
Nú báruna lægir.

Á árar ég lagðist
að landi ég náði
og lít upp til himins
þar leiðsögn ég finn.
Augun þau glitra
sem glóandi viti
í gær var ég týndur
í dag er ég þinn.

 
ÆRIR
1959 - ...


Ljóð eftir ÆRI

Ljósheimar
Rauðbrystingur
Maríukvæði
Samstaða
Líkn
Hesthús
Mitokondría
Úr skáldfákadrápu
Refhvörf
Sumarvon
Í bældri lautu
Í heiðinni
Vor í Prag
Lidice
Löngufjörur
Laufskörð
Sumarskuggi
Sáluhjálp
galaxí gvendur
Jökulland
Fákar
Fjallkonan í Kárahnjúkum
Fingurbjörg
Þræðir
Alheimsins tóm
Eigum við að elskast
Haf og strönd
Haust
Fjalladís
Bölsýni
Bláskel
Illugakvæði og Finns
Tvídægra
Hnykkur
Í djúpinu
Hlákan