Andvökusálmur
Svei þér, andvakan arga!
uni þér hver sem má.
Þú hefur mæðumarga
myrkurstund oss í hjá
búið með böl og þrá,
fjöri og kjark að farga.
Fátt verður þeim til bjarga,
sem nóttin níðist á.

Myrkrið er manna fjandi,
meiðir það líf og sál,
sídimmt og síþegjandi
svo sem helvítis bál
gjörfullt með gys og tál.
Veit ég, að vondur andi
varla í þessu landi
sveimar um sumarmál.

Komdu, dagsljósið dýra!
dimmuna hrektu brott;
komdu, heimsaugað hýra!
helgan sýndu þess vott,
að ætíð gjörir gott, -
skilninginn minn að skýra,
skpenunni þinni stýra;
ég þoli ekki þetta dott.

Guðað er nú á glugga;
góðvinur kominn er,
vökumanns hug að hugga;
hristi ég nótt af mér,
uni því eftir fer.
Aldrei þarf það að ugga:
aumlegan grímu skugga
ljósið í burtu ber.
 
Jónas Hallgrímsson
1807 - 1845


Ljóð eftir Jónas Hallgrímsson

Uppkast að "Ég bið að heilsa!"
Fremrinámar
Víti
Heima
Skrælingjagrátur
Hugnun
Batteríski syndarinn
Á gömlu leiði 1841
La Belle
Andvökusálmur
Á nýjársdag 1845
Bósi
Ó, þú jörð
Ég ætlaði mér að yrkja
In aquilonem nocturnum
Dalabóndinn í óþurrknum
Réttarvatn
Óhræsið
Laxinn
Dalvísa
Vísur Íslendinga
Ég bið að heilsa
Söknuður
Ferðalok
Bjarni Thorarensen
Saknaðarljóð
Ísland
Stökur
La belle
Ad matrem orbatam
Vorvísa
Kvölddrykkjan
Gunnarshólmi
Móðurást
Íslands minni
Einbúinn
Galdraveiðin
Hulduljóð
Ásta
Helvíti
Fjallið Skjaldbreiður