Vorvísa
Tinda fjalla,
áður alla
undir snjá,
sín til kallar sólin há,
leysir hjalla,
skín á skalla,
skýi sem að brá
og sér fleygði frá.

Tekur buna
breið að duna
björgum á.
Græn því una grundin má.
Viður hruna
vatna funa
vakna lauf og strá.
Seinna seggir slá.

Snjórinn eyðist,
gata greiðist.
Gumar þá,
ef þeim leiðist, leggja á,
hleypa skeið
og herða reið
og hrinda vetri frá. -
Hverfur dimmu dá.

Prúðir sækja
lón og læki
laxar þá.
Sumir krækja silungsá.
Veiðitækir,
sporðasprækir,
spretti hörðum á
fjalli fýsast ná.

Fjaðraléttir
flokkar þéttir
fugla þá
synda ettir sumará,
eða mettir
strönd og stéttir
stika til og frá,
kæta loft og lá.

Ærin ber
og bærinn fer
að blómgast þá.
Leika sér þar lömbin smá.
Nú er í veri
nóg að gera,
nóttu bjartri á
hlutir hækkað fá.

Grænkar stekkur.
Glöð í brekku
ganga kná
börnin þekku bóli frá.
Kreppir ekki
kuldahlekkur,
kætist fögur brá,
búa blómum hjá.

Rennur sunna.
Sveinn og nunna
sér við brá.
Sízt þau kunna sofa þá.
Sælt er að unnast.
Mjúkum munni
málið vaknar á,
fegurst höldum hjá.

Ekkert betra
eg í letri
inna má.
Svo er vetri vikið frá.
Uni fleti
hver, sem getur,
heimskum gærum á.
Önnur er mín þrá.
 
Jónas Hallgrímsson
1807 - 1845


Ljóð eftir Jónas Hallgrímsson

Skrælingjagrátur
Batteríski syndarinn
Andvökusálmur
Óhræsið
Dalvísa
Vísur Íslendinga
Söknuður
Uppkast að "Ég bið að heilsa!"
Fremrinámar
Víti
Heima
Hugnun
Ferðalok
Bjarni Thorarensen
Saknaðarljóð
Á gömlu leiði 1841
La Belle
Á nýjársdag 1845
Fjallið Skjaldbreiður
Ísland
Vorvísa
Bósi
Ó, þú jörð
Ég ætlaði mér að yrkja
In aquilonem nocturnum
Dalabóndinn í óþurrknum
Réttarvatn
Laxinn
Kvölddrykkjan
Gunnarshólmi
Stökur
Ég bið að heilsa
La belle
Ad matrem orbatam
Móðurást
Íslands minni
Einbúinn
Galdraveiðin
Hulduljóð
Ásta
Helvíti