Bjarni Thorarensen
Skjótt hefur sól brugðið sumri,
því séð hef ég fljúga
fannhvíta svaninn úr sveitum
til sóllanda fegri.
Sofinn er nú söngurinn ljúfi
í svölum fjalldölum,
grátþögull harmafugl hnípir
á húsgafli hverjum.

Skjótt hefur guð brugðið gleði
góðvina þinna,
ástmögur Íslands hinn trausti
og ættjarðar blóminn!
Áður sat ítur með glöðum
og orðum vel skipti.
Nú reikar harmur í húsum
og hryggð á þjóðbrautum.

Hlægir mig eitt, það, að áttu
því uglur ei fagna,
ellisár örninn að sæti
og á skyldi horfa
hrafnaþing kolsvart í holti
fyrir haukþing á bergi.
Floginn ertu sæll til sóla,
er sortnar hið neðra.

Glaðir skulum allir að öllu
til átthaga vorra
horfa, er héðan sá hverfur,
oss hjarta stóð nærri.
Veit ég, er heimtir sér hetju
úr harki veraldar
foringinn tignar, því fagna
fylkingar himna.

Kættir þú margan að mörgu,
svo minnzt verður lengi,
þýðmennið, þrekmennið glaða
og þjóðskáldið góða.
Gleðji nú guð þig á hæðum
að góðfundum anda.
Friði þig frelsarinn lýða.
Far nú vel, Bjarni!

 
Jónas Hallgrímsson
1807 - 1845


Ljóð eftir Jónas Hallgrímsson

Skrælingjagrátur
Batteríski syndarinn
Andvökusálmur
Óhræsið
Dalvísa
Vísur Íslendinga
Söknuður
Uppkast að "Ég bið að heilsa!"
Fremrinámar
Víti
Heima
Hugnun
Ferðalok
Bjarni Thorarensen
Saknaðarljóð
Á gömlu leiði 1841
La Belle
Á nýjársdag 1845
Fjallið Skjaldbreiður
Ísland
Vorvísa
Bósi
Ó, þú jörð
Ég ætlaði mér að yrkja
In aquilonem nocturnum
Dalabóndinn í óþurrknum
Réttarvatn
Laxinn
Kvölddrykkjan
Gunnarshólmi
Stökur
Ég bið að heilsa
La belle
Ad matrem orbatam
Móðurást
Íslands minni
Einbúinn
Galdraveiðin
Hulduljóð
Ásta
Helvíti