Batteríski syndarinn
Hæð veit ég standa, -
það var herborg áður
fleiri en fimm daga,
þars ég feiknstafi
flesta um leit
svalri sefströnd á.

Harðan helgaldur
þá er um haf kominn
vindur á vogi blæs,
brimskafl bláfaldinn
buldri þungu
grenjar að grunnsteinum.

Eitt var það undra,
er ég þar eyrum nam,
þá er næddi næturkul.
Ungbarns ópi
sem þess, er ófætt dó,
þótti mér hvert strá stynja. -

Hví svo þrungin þú
þungu drepur
höfði moldu mót?
Hví þú in hárfagra,
hrelldum lík,
sóley, sólu flýr?

Hvort þá svo harðráð
og heiftarfull
býr í brjósti lund
hræsvelg hrímþursa,
er í hvirfilbyl
fer of foldar jaðar?

Var það ei ærið,
er þú áður felldir
sólu borið blóm,
þótt ei saklausu
síðan hingað að
feyktir þess frækorni?

Illska, andstyggð
og óþoli,
örgust eiturjurt,
grær hér í grasi,
unz guðs veður
fellir þau fullvaxta.

Syrgir nú einmana
ið unga blóm,
runnið í reit lasta.
Hörðum huga
hatar sól og vind
fyrir tilveru tíma.

En, Bergur, þú,
sem und bjargstórum
syndaþunga þreyr,
höfði hnarreistu
- svo er hjartað blint -
apast að óheillum.

Saklaus blóm,
þau er ei synd þekktu,
felast fyrir þér,
þars þú glaður
þeim, er gabbað fékkst,
mætir að munaði.

Ómar mér í eyrum
þitt eymdakvein,
er hörðum heldróma
sveiptur sárlega
um seinan vaknar
fyr nágrindur neðan.

Illar nöðrur,
þær eð æ vaka,
sárt á sálu bíta.
Þannig vaknar
sá, er í villu svaf.
Æ koma mein eftir munað.  
Jónas Hallgrímsson
1807 - 1845


Ljóð eftir Jónas Hallgrímsson

Uppkast að "Ég bið að heilsa!"
Fremrinámar
Víti
Heima
Skrælingjagrátur
Hugnun
Batteríski syndarinn
Á gömlu leiði 1841
La Belle
Andvökusálmur
Á nýjársdag 1845
Bósi
Ó, þú jörð
Ég ætlaði mér að yrkja
In aquilonem nocturnum
Dalabóndinn í óþurrknum
Réttarvatn
Óhræsið
Laxinn
Dalvísa
Vísur Íslendinga
Ég bið að heilsa
Söknuður
Ferðalok
Bjarni Thorarensen
Saknaðarljóð
Ísland
Stökur
La belle
Ad matrem orbatam
Vorvísa
Kvölddrykkjan
Gunnarshólmi
Móðurást
Íslands minni
Einbúinn
Galdraveiðin
Hulduljóð
Ásta
Helvíti
Fjallið Skjaldbreiður