4. sálmur
Samtal Kristí við lærisveinana

1.
Postula kjöri Kristur þrjá
í kvölinni sér að vera hjá,
bauð þeim: Vakið og biðjið víst,
bráðleg freistni svo grandi síst.

2.
Strax sem Jesús um steinsnar nær
sté fram lengra, þess gætum vér,
allir sofnuðu sætt með ró.
Sjálfur herrann einn vakti þó.

3.
Áður var svoddan um þig spáð,
ásett fram kom nú herrans ráð.
Þú hlaust Guðs reiðiþrúgu einn
þreyttur að troða, Jesú hreinn.

4.
Ef ég skal ekki sofna í synd,
svo er náttúran veik og blind,
um steinsnar máttu eitt mér frá
aldrei, minn Jesú, víkja þá.

5.
Næturhvíldin mín náttúrleg
nóg er mér trygg þá veit ég þig
hjá mér vaka til hjálpræðis.
Hvert kvöld vil ég þig biðja þess.

6.
Þrisvar Jesús til þeirra fór
því að hann mæddi pína stór.
Hann bað Petrum með hýrri lund
hjá sér að vaka um eina stund.

7.
En hann sofnaði æ því meir
svo ekki vissi hann né þeir
hverju svöruðu honum þá.
Herrans pínu mjög jók það á.

8.
Mig hefur ljúfur lausnarinn
leitt inn í náðargrasgarð sinn,
vakandi svo ég væri hér.
Vitni skírnin mín um það ber.

9.
Ungdómsbernskan, sem vonlegt var,
vildi mig of mjög svæfa þar.
Foreldrahirting hógværleg
hans vegna kom og vakti mig.

10.
Aldurinn þá mér öðlaðist
á féll gjálífissvefninn mest.
Kennimenn drottins komu þrátt,
kölluðu mig að vakna brátt.

11.
Fullvaxinn gleymskusvefninn sár
sótti mig heim og varð mjög dár.
Dimman heimselsku dróst að með,
dapurt varð mitt til bænar geð.

12.
Þá kom Guðs anda hræring hrein
í hjartað mitt inn sá ljóminn skein.
En í heimskunni svo ég svaf,
sjaldan mig neitt að slíku gaf.

13.
Fárlega var mín fíflskan blind.
Forlát mér, Jesú, þessa synd,
hvar með að jók ég hugraun þér
en hefnd og refsing sjálfum mér.

14.
Láttu þó aldrei leiðast þér,
ljúfi Jesú, að benda mér.
Hugsi til mín þitt hjartað milt,
hirtu mig líka sem þú vilt.

15.
Vil ég nú hjartans feginn fá,
frelsari minn, að vaka þér hjá.
Andinn til reiðu er í stað,
of mjög holdið forhindrar það.

16.
Jesús unnti með ljúfri lund
lærisveinum að hvíla um stund
því hann vorkenndi þeim og mér.
Það eitt mín blessuð huggun er.

17.
Síðast allra þá sá hann þar
svikaralið fyrir hendi var,
bauð þeim: Vakið og biðjið best,
burt er nú værðartíðin mest.

18.
Svoddan áminning, sála mín,
sannlega skyldi ná til þín
svo þig ei skaði svefninn vær.
Svikarinn er þér ekki fjær.

19.
Dauðinn forræður fjörið þó,
fyrr en varði því margur dó.
Hann er í nánd þó sjáist síst,
sérhvern dag er hans áhlaup víst.

20.
Dauðinn þá mætir dapur þér,
dóminn hefur hann eftir sér.
Djöfullinn bíður búinn þar,
í bálið vill draga sálirnar.

21.
Sjá þú vel til að svoddan her
sofandi komi ekki að þér.
Í hreinni iðran því hvern dag vak,
herskrúða drottins á þig tak.

22.
Bænin má aldrei bresta þig,
búin er freisting ýmisleg.
Þá líf og sál er lúð og þjáð
lykill er hún að drottins náð.

23.
Andvana lík til einskis neytt
er að sjón, heyrn og máli sneytt.
Svo er án bænar sálin snauð,
sjónlaus, köld, dauf og rétt steindauð.

24.
Vaktu, minn Jesú, vaktu í mér,
vaka láttu mig eins í þér.
Sálin vaki þá sofnar líf,
sé hún ætíð í þinni hlíf.

......Amen

 
Hallgrímur Pétursson
1614 - 1674
Orðskýringar:

dár: fastur
fárlegur: voðalegur, ægilegur
forláta: fyrirgefa
forráða: svíkja
reiðiþrúga: þrúga er vínþröng, þar sem vínber eru troðin svo að safinn næðist úr þeim, sbr. Op. 14, 18-20; Jes. 63, 1-6; Hermlj. 1, 15; Op. 19, 15.


Ljóð eftir Hallgrím Pétursson

Um dauðans óvissu tíma
49. sálmur
Heilræðavísur
48. sálmur
47. sálmur
45. sálmur
46. sálmur
44. sálmur
43. sálmur
42. sálmur
41. sálmur
38. sálmur
40. sálmur
37. sálmur
39. sálmur
36. sálmur
35. sálmur
32. sálmur
34. sálmur
25. sálmur
33. sálmur
22. sálmur
31. sálmur
21. sálmur
30. sálmur
19. sálmur
29. sálmur
18. sálmur
28. sálmur
16. sálmur
27. sálmur
15. sálmur
26. sálmur
14. sálmur
24. sálmur
11. sálmur
23. sálmur
10. sálmur
20. sálmur
8. sálmur
17. sálmur
7. sálmur
13. sálmur
4. sálmur
12. sálmur
3. sálmur
9. sálmur
2. sálmur
6. sálmur
1. sálmur
Ölerindi
Allt eins og blómstrið eina
5. sálmur
50. sálmur
Móðurmálið