47. sálmur
Um Kristí kunningja sem stóðu langt frá

1.
Kunningjar Kristí þá
krossinum langt í frá
stóðu með þungri þrá,
þessa tilburði sjá.

2.
Var þar og viðstatt með
að vísu margt kvenfólkið,
sár Jesú fengu séð,
sorgandi báru geð.

3.
Af þessu, mín sál, þú sérð
sannlega hversu er
valt allt í heimi hér.
Haf slíkt í minni þér.

4.
Dvínar og dregst í hlé
á dauðastundunni
vinskapur, frændur, fé.
Fallvalt hygg ég það sé.

5.
Þó vildu vinirnir
veita hjálp nokkra þér,
vörn þeirra ónýt er,
enginn dauðanum ver.

6.
Lífinu hjúkrar hönd
þá herðir sóttargrönd.
Hjálpa þó engin önd
upphugsuð ráðin vönd.

7.
Vinskap í synda sið,
sála mín, þess ég bið,
bittu ei veröld við,
viljir þú sofna í frið.

8.
Hreinan vinskap halt þú
við herrann þinn Jesúm nú.
Í helgri hjartans trú
frá heimsins elsku þér snú.

9.
Hann einn má hjálpa þér
þá hjástoð mannleg þverr,
heim þig á höndum sér
í himnasælu ber.

10.
Það hér í sannleik sést
er sonur Guðs andaðist,
sorgin þá særði mest
sem hann elskuðu best.

11.
Krists börn eru krossbörn,
við Kristum hlýðnisgjörn.
Hann sýnir þeim hjálp og vörn
þó hörð sé sútarkvörn.

12.
Þú skyldir þar að gá,
þó þeir stæðu langt frá
allir samhuga sjá
son Guðs kross festan á.

13.
Komið svo, konur og menn,
að krossinum Jesú senn.
Þó nauðin þrengi þrenn
þar fæst nóg lækning enn

14.
Kom þú, sál kristin, hér
sem kross og mannraunir ber.
Settu fyrir sjónir þér
son Guðs sem píndur er.

15.
Upp á hans heilög sár
horfi þín trúin klár,
það mýkir trega og tár,
temprar allt sorgarfár.

16.
Sértu, syndugur mann,
særður um hyggjurann,
horfðu beint upp á hann
sem hjálp þér á krossi fann.

17.
Hver sem eirorminn leit
af Ísraels manna sveit,
eitrið ei á þann beit,
öll stilltist plágan heit.

18.
Svo stór synd engin er
að megi granda þér
ef þú iðrandi sérð
í trúnni Jesúm hér.

19.
Sé ég þig, sæll Jesú,
svo sem álengdar nú,
von mína og veika trú
við bið ég hressir þú.

20.
Þá ég sé sárin mín
særir mig hjartans pín,
en sárin þá sé ég þín
sorg öll og kvíðinn dvín.

21.
Lát mig, ó Jesú kær,
aldrei svo vera þér fjær
að sjái ég ei sár þín skær
þá sorg og eymd mig slær.

22.
Veit mér ég verði og sé
vin þinn og kunningi.
Þó hverfi heilsa og fé,
hjálp mun þá nóg í té.

23.
Ég fel í sérhvert sinn
sál og líkama minn
í vald og vinskap þinn,
vernd og skjól þar ég finn.

.................Amen  
Hallgrímur Pétursson
1614 - 1674
Orðskýringar:

grand (grönd): græðgi
klár: hreinn
sút: sorg
þrá: hugsýki, hryggð


Ljóð eftir Hallgrím Pétursson

Um dauðans óvissu tíma
Ölerindi
Allt eins og blómstrið eina
Heilræðavísur
49. sálmur
48. sálmur
47. sálmur
46. sálmur
45. sálmur
44. sálmur
43. sálmur
42. sálmur
41. sálmur
40. sálmur
39. sálmur
38. sálmur
37. sálmur
36. sálmur
35. sálmur
34. sálmur
33. sálmur
32. sálmur
31. sálmur
30. sálmur
29. sálmur
28. sálmur
27. sálmur
25. sálmur
24. sálmur
23. sálmur
22. sálmur
21. sálmur
20. sálmur
19. sálmur
18. sálmur
17. sálmur
16. sálmur
15. sálmur
14. sálmur
13. sálmur
12. sálmur
11. sálmur
10. sálmur
9. sálmur
8. sálmur
7. sálmur
6. sálmur
5. sálmur
4. sálmur
3. sálmur
2. sálmur
1. sálmur
50. sálmur
26. sálmur
Móðurmálið