27. sálmur
Pílatí samtal við Gyðinga á dómstólnum

1.
Pílatus heyrði hótað var
honum keisarans reiði þar.
Út leiddi Jesúm annað sinn,
upp sest þegar á dómstólinn.

2.
Gyðingum síðan sagði hér:
Sjáið, þar yðar kóngur er.
Þeir báðu: Tak þennan burt frá oss.
Bráðlega lát hann deyja á kross.

3.
Skal ég krossfesta kóng yðvarn?
kallar Pílatus hæðnisgjarn.
Engan kóng, segja þeir aftur hér,
utan keisarann höfum vér.

4.
Guðspjallshistorían hermir frá
heiti sá staður Gabbatá.
Háa steinstræti þýðir það.
Þar máttu, sál mín, gæta að.

5.
Vei þeim dómara er veit og sér
víst hvað um málið réttast er.
Vinnur það þó fyrir vinskap manns
að víkja af götu sannleikans.

6.
Pílatus keisarans hræddist heift
ef honum yrði úr völdum steypt.
Þetta sem helst nú varast vann
varð þó að koma yfir hann.

7.
Ó, vei þeim sem með órétt lög
umgangast og þau tíðka mjög,
sannleiknum meta sitt gagn meir.
Svívirðing Drottni gjöra þeir.

8.
Huga sný ég og máli mín,
minn góði Jesú, enn til þín.
Pílatus kóng þig kallar hér.
Krossfesting Júðar óska þér.

9.
Víst ertu, Jesú, kóngur klár,
kóngur dýrðar um eilíf ár,
kóngur englanna, kóngur vor,
kóngur almættis tignarstór.

10.
Þó stóðstu bundinn þar fyrir dóm,
þó leiðstu hróp og kvalaróm.
Afsegja gjörðu allir þig.
Undrar stórlega þetta mig.

11.
Ó Jesú, það er játning mín:
Ég mun um síðir njóta þín
þegar þú, dýrðar drottinn minn,
dómstól í skýjum setur þinn.

12.
Frelsaður kem ég þá fyrir þinn dóm,
fagnaðarsælan heyri ég róm.
Í þínu nafni útvaldir
útvalinn kalla mig hjá sér.

13.
Kóng minn, Jesú, ég kalla þig,
kalla þú þræl þinn aftur mig.
Herratign enga að heimsins sið
held ég þar mega jafnast við.

14.
Háa steinstrætið heimsins sleipt
hefur mér oft í vanda steypt.
Þangað lét Jesús leiða sig
svo líknin hans kæmi yfir mig.

15.
Jesú, þín kristni kýs þig nú.
Kóngur hennar einn heitir þú.
Stjórn þín henni svo haldi við,
himneskum nái dýrðarfrið.

.......................Amen  
Hallgrímur Pétursson
1614 - 1674
Orðskýringar:

klár: hreinn


Ljóð eftir Hallgrím Pétursson

Um dauðans óvissu tíma
Ölerindi
Allt eins og blómstrið eina
Heilræðavísur
49. sálmur
48. sálmur
47. sálmur
46. sálmur
45. sálmur
44. sálmur
43. sálmur
42. sálmur
41. sálmur
40. sálmur
39. sálmur
38. sálmur
37. sálmur
36. sálmur
35. sálmur
34. sálmur
33. sálmur
32. sálmur
31. sálmur
30. sálmur
29. sálmur
28. sálmur
27. sálmur
25. sálmur
24. sálmur
23. sálmur
22. sálmur
21. sálmur
20. sálmur
19. sálmur
18. sálmur
17. sálmur
16. sálmur
15. sálmur
14. sálmur
13. sálmur
12. sálmur
11. sálmur
10. sálmur
9. sálmur
8. sálmur
7. sálmur
6. sálmur
5. sálmur
4. sálmur
3. sálmur
2. sálmur
1. sálmur
50. sálmur
26. sálmur
Móðurmálið