24. sálmur
Um purpuraklæðið og þyrnikórónuna

1.
Illvirkjar Jesúm eftir það
inn í þinghúsið leiddu,
afklæddu fyrst og fljótt þangað
fólkið allt koma beiddu.
Purpuraklæðis forna flík,
fást mátti varla háðung slík,
yfir hans benjar breiddu.

2.
Helgunarklæðið hafði ég misst,
hlaut því nakinn að standa.
Adam olli því allra fyrst,
arf lét mér þann til handa.
Syndanna flík ég færðist í,
forsmán og minnkun hlaust af því
með hvers kyns háska og vanda.

3.
Burt tók Jesús þá blygðun hér,
beran því lét sig pína.
Réttlætisklæðnað keypti mér,
kann sá fagurt að skína.
Athvarf mitt jafnan er til sanns
undir purpurakápu hans.
Þar hyl ég misgjörð mína.

4.
Þyrnikórónu þungri þeir
þrengdu að herrans enni.
Báleldi heitum brenndu meir
broddar svíðandi í henni.
Augun hans bæði og andlit með
allt í blóðinu litast réð.
Slíkt trúi ég kvala kenni.

5.
Fyrir óhlýðni Adams var
öll jörðin lýst í banni.
Ávöxt því slíkan af sér bar,
orð Guðs trúi ég það sanni.
Þessum bölvunar þyrnikrans
þrengt var að höfði lausnarans
til huggunar hrelldum manni.

6.
En Jesú hlýðni aftur hér
allri jörð blessun færir.
Heilnæman ávöxt hún því ber,
hverja skepnu vel nærir.
Fyrir gæskunnar gjörning þann
gjarnan lofi og prísi hann
hvað sig um heiminn hrærir.

7.
Bölvan mér yfir höfði hékk
hótuð í lögmálsbræði,
en Jesús hana undir gekk
svo aftur ég blessun næði.
Guð minn kórónu gaf mér þar
gæsku og dýrðar eilífrar
hér og á himnum bæði.

8.
Reyrstaf honum í hönd með spé
hirðstjórans þrælar fengu.
Heilsuðu kóngi og krupu á hné,
kallsorð á víxl þá gengu.
Reyrnum hröktu um höfuð hans,
hræktu í andlit lausnarans
með kvala kappi ströngu.

9.
Þá þú gengur í Guðs hús inn
gæt þess vel, sál mín fróma,
hæð þú þar ekki herrann þinn
með hegðun líkamans tóma.
Beygðu holdsins og hjartans hné,
heit bæn þín ástarkveðja sé.
Hræsnin mun síst þér sóma.

10.
Sjálfs míns verðskuldan sé ég hér,
svoddan átti ég að líða
um eilífð þá sem aldrei þverr
með ógn og sárum kvíða,
hefði mér ekki háðung þín
hjálpað, Jesú, frá þeirri pín.
Blessað sé nafn þitt blíða.

11.
Öll þín læging er upphefð mín,
ástkæri Jesú mildi.
Heiður er mér að háðung þín,
hver sem mér niðra vildi.
Höggin sem leiðstu hressa mig,
á himnum verð ég nú fyrir þig
metinn í mesta gildi.

12.
Meðan lífsæð er í mér heit
ég skal þig, drottinn, prísa,
af hjartans grunni í hverjum reit
heiður þíns nafns auglýsa.
Feginn vil ég í heimi hér
hlýða og fylgja í öllu þér.
Lát mér þína liðsemd vísa.

............Amen
 
Hallgrímur Pétursson
1614 - 1674
Orðskýringar:

frómur: guðrækinn, góður
kallsorð: hæðnisorð


Ljóð eftir Hallgrím Pétursson

Um dauðans óvissu tíma
Ölerindi
Allt eins og blómstrið eina
Heilræðavísur
49. sálmur
48. sálmur
47. sálmur
46. sálmur
45. sálmur
44. sálmur
43. sálmur
42. sálmur
41. sálmur
40. sálmur
39. sálmur
38. sálmur
37. sálmur
36. sálmur
35. sálmur
34. sálmur
33. sálmur
32. sálmur
31. sálmur
30. sálmur
29. sálmur
28. sálmur
27. sálmur
25. sálmur
24. sálmur
23. sálmur
22. sálmur
21. sálmur
20. sálmur
19. sálmur
18. sálmur
17. sálmur
16. sálmur
15. sálmur
14. sálmur
13. sálmur
12. sálmur
11. sálmur
10. sálmur
9. sálmur
8. sálmur
7. sálmur
6. sálmur
5. sálmur
4. sálmur
3. sálmur
2. sálmur
1. sálmur
50. sálmur
26. sálmur
Móðurmálið