49. sálmur
Um Kristí greftran

1.
Jósef af Arimathíá,
eðalborinn ráðsherra sá,
Gyðinga svik við son Guðs skeð
samþykkt hafði þeim aldrei með.

2.
Hann var lausnarans lærisveinn,
lífernisfrómur, dyggðahreinn.
Gyðinga hræddist hefnda raun,
hélt sig að Kristó því á laun.

3.
Þessi um kvöldið þangað gekk,
þá af Pílató leyfi fékk
að mætti Jesúm andaðan
ofan taka og jarða hann.

4.
Jósef tók strax af krossi Krist,
keypti þó nýjan líndúk fyrst.
Nikódemus kom þegar þar,
þangað kostuleg smyrslin bar.

5.
Jósef gröf eina átti þar,
útklöppuð sú í steini var
í aldingarði allskammt frá.
Enginn fyrr dauður í henni lá.

6.
Dýrlega smurðu drottins lík,
dæmin má önnur finna slík,
byrgðu með steini búna gröf,
burt gengu strax fyrir utan töf.

7.
María, Jakobs móðir ein,
Magdalena á sömu grein,
Salóme einnig sat þar hjá,
sáu vors herra greftrun á.

8.
Í þeirra selskap, sál mín blíð,
settu þig niður litla tíð.
Greftrun þíns herra gæt vel að,
gagnslaust mun ekki vera það.

9.
Við Jesú greftran ég fæ séð
Jósef og Nikódemum með.
Áður þorðu þeir ekki Krist
opinberlega að játa fyrst.

10.
Nú fá þeir næsta nýjan dug,
nóga djörfung og styrkan hug,
augljóslega svo allir sjá
elsku sem drottni höfðu á.

11.
Rjúkandi trúarhörinn hér
helgur andi svo viðnærir,
ljómandi þar af ljósið skín,
lífgar hann allt með krafti sín.

12.
Huggist þeir nú sem hjartað deigt
hafa og trúarmegnið veikt,
biðji um styrk og stöðugt geð,
stundi og læri Guðs orð með.

13.
Veittu, Jesú, að veik trú mín
vaxi daglega og elskan þín
eflist svo með mér innvortis,
ytra góð sjáist merki þess.

14.
Annað þú líka minnast mátt,
mislíkar drottni á engan hátt
þó heiðarleg sé hér á jörð
holdi útvaldra líkför gjörð.

15.
Mætast Guðs anda musteri
manns var rétt kristins líkami.
Því má honum veitast virðing rétt,
vel með hófi og stilling sett.

16.
Erfisdrykkjur og ónýtt prjál
ekki á skylt við þetta mál.
Heiðingjaskikkun heimskuleg
hæfir kristnum á engan veg.

17.
Ætíð þá sérð þú sálað hold
sett vera niður í jarðarmold,
hryggur þú vert og hugsa brátt
hér við þú líka skiljast átt.

18.
Lagt þegar niður líkið sérð,
láttu sem dauðinn hvísli að þér:
Langt máske ekki líði um það,
legg ég þig eins í slíkan stað.

19.
Góði Jesú, fyrir greftran þín
gefðu síðasta útför mín
verði friðsöm og farsæl mér,
frelsuð sál nái dýrð hjá þér.

20.
Í þriðja lagi huggun hrein
hér veitist mér á alla grein.
Guðs sonar hold því greftrað var
greftrun minni til virðingar.

21.
Helgum Guðs börnum herrans hold
helgaði bæði jörð og mold.
Gröfin því er vort svefnhús sætt,
svo má ei granda reiðin hætt.

22.
Svo að lifa, ég sofni hægt,
svo að deyja, að kvöl sé bægt,
svo að greftrast sem Guðs barn hér
gefðu, sælasti Jesú, mér.

...................Amen  
Hallgrímur Pétursson
1614 - 1674
Orðskýringar:

selskapur: félagsskapur, samneyti
skikkun: hegðun


Ljóð eftir Hallgrím Pétursson

Um dauðans óvissu tíma
Ölerindi
Allt eins og blómstrið eina
Heilræðavísur
49. sálmur
48. sálmur
47. sálmur
46. sálmur
45. sálmur
44. sálmur
43. sálmur
42. sálmur
41. sálmur
40. sálmur
39. sálmur
38. sálmur
37. sálmur
36. sálmur
35. sálmur
34. sálmur
33. sálmur
32. sálmur
31. sálmur
30. sálmur
29. sálmur
28. sálmur
27. sálmur
25. sálmur
24. sálmur
23. sálmur
22. sálmur
21. sálmur
20. sálmur
19. sálmur
18. sálmur
17. sálmur
16. sálmur
15. sálmur
14. sálmur
13. sálmur
12. sálmur
11. sálmur
10. sálmur
9. sálmur
8. sálmur
7. sálmur
6. sálmur
5. sálmur
4. sálmur
3. sálmur
2. sálmur
1. sálmur
50. sálmur
26. sálmur
Móðurmálið