10. sálmur
Um það fyrsta rannsak fyrir Kaífa

1.
Til Hannas húsa herrann Krist
harðráðir Júðar leiddu fyrst.
Beisk, frá ég, bönd hann særi.
Honum strax þaðan vísað var,
viðtekt fékk ei né hvíldir þar
mjög svo þó mæddur væri.

2.
Burt sendi því með beiskri pín
bundinn Kaífas, mági sín,
Hannas vorn herrann sæta.
Höfuðkennimanns hæstu stétt
hafði sá þetta árið rétt,
Guðs lögmáls átti að gæta.

3.
Úr himnaríkis hvíldarstað
höfðum við, sál mín, forskuldað
út rekin víst að vera.
En Jesús tók nú upp á sig
ónáðan slíka fyrir þig.
Lof sé þeim ljúfa herra.

4.
Hjartað bæði og húsið mitt
heimili veri, Jesú, þitt,
hjá mér þigg hvíld hentuga.
Þó þú komir með krossinn þinn
kom þú blessaður til mín inn.
Fagna ég þér fegins huga.

5.
Kaífas hafði hér um spáð,
hentugast mundi þetta ráð
að dæi einn fyrir alla.
Embættis mælti andinn þar
af því hjartað ei vissi par,
sannleik Guðs sinnti varla.

6.
Balaams dæmi eins var eitt,
andagift sú var honum veitt,
spaklega tungan spáði.
Hann hafði í sinni hrekkjaráð,
hjartað fékk ekki sannleiks gáð
því hann fégirndin þjáði.

7.
Ó, Jesú, láttu aldrei hér
anda þinn víkja burt frá mér.
Leið mig veg lífsins orða
svo hjartað bæði og málið mitt
mikli samhuga nafnið þitt,
holdsgirnd og hræsni forða.

8.
Til Kaífas voru komnir senn
kennivaldið og stjórnarmenn.
Biskupinn þegar að bragði
leitar andsvars til lausnarans
um lærisveina og kenning hans
en Jesús aftur sagði:

9.
Opinberlega en ekki leynt
í musterinu kenndi ég beint.
Hvað spyrð þú mig um þetta?
Kunngjöra mega þar um þér
þeir sem lærdóminn heyrðu af mér,
þá láttu þig leiðrétta.

10.
Gæt að, mín sál, og sjáðu þar,
sonur Guðs undir rannsak var
krafður það kvöldið eina.
Á kvöldi hverju því koma skalt,
kvöldreikning við þig sjálfan halt
með kvöldoffurs iðrun hreina.

11.
Þú Guðs kennimann, þenk um það,
þar mun um síðir grennslast að
hvernig og hvað þú kenndir.
Að lærisveinum mun líka spurt
sem lét þitt gáleysi villast burt.
Hugsa glöggt hvar við lendir.

12.
Jesús vill að þín kenning klár
kröftug sé, hrein og opinská,
lík hvellum lúðurs hljómi.
Launsmjaðran öll og hræsnin hál
hindrar Guðs dýrð en villir sál,
straffast með ströngum dómi.

13.
Vangæslan mín er margvísleg,
mildasti Jesú, beiði ég þig:
Vægðu veikleika mínum.
Forsómun engin fannst hjá þér,
fullnaðarbót það tel ég mér.
Styrk veittu þjónum þínum.

14.
Eins er hér öllum einnig rétt
alvarleg kenning fyrir sett
að orð Guðs elski og læri.
Trúin innvortis efli geð,
einarðleg játning líka með
ávöxt hið ytra færi.

15.
Biskups þjón einn í bræði þó
blessaðan Jesúm pústur sló,
svo það ritningin segir.
Hógværlegt forsvar herrann gaf,
honum, sál mín, það lærðu af,
um sakleysi þitt ei þegir.

16.
Óvart samviskan Adam sló,
illan kinnroða fékk hann þó
í fyrsta falli sínu.
Þess vegna Jesús höggið hast
hlaut að líða og roðna fast
allra fyrst í hans pínu.

17.
Drottinn Jesú, ég þakka þér,
þetta leiðstu til frelsis mér.
Ég bið ástsemi þína:
Samviskuslögin sviðaskæð
á sálu minni þú mýk og græð,
burt taktu blygðun mína.

...................Amen

 
Hallgrímur Pétursson
1614 - 1674
Orðskýringar:

forskulda: verðskulda
forsómun: vanræksla
forsvar: vörn
klár: skír
offur: fórn
pústur: löðrungur, kinnhestur


Ljóð eftir Hallgrím Pétursson

Um dauðans óvissu tíma
Ölerindi
Allt eins og blómstrið eina
Heilræðavísur
49. sálmur
48. sálmur
47. sálmur
46. sálmur
45. sálmur
44. sálmur
43. sálmur
42. sálmur
41. sálmur
40. sálmur
39. sálmur
38. sálmur
37. sálmur
36. sálmur
35. sálmur
34. sálmur
33. sálmur
32. sálmur
31. sálmur
30. sálmur
29. sálmur
28. sálmur
27. sálmur
25. sálmur
24. sálmur
23. sálmur
22. sálmur
21. sálmur
20. sálmur
19. sálmur
18. sálmur
17. sálmur
16. sálmur
15. sálmur
14. sálmur
13. sálmur
12. sálmur
11. sálmur
10. sálmur
9. sálmur
8. sálmur
7. sálmur
6. sálmur
5. sálmur
4. sálmur
3. sálmur
2. sálmur
1. sálmur
50. sálmur
26. sálmur
Móðurmálið