50. sálmur
50. sálmur

Um varðhaldsmennina

1.
Öldungar Júða annars dags
inn til Pílatum gengu strax,
sögðu: Herra, vér höfum mest
í huga fest,
hvað sá falsari herma lést.

2.
Eftir þrjá daga ótt fyrir sann
upp rísa mun ég, sagði hann.
Við slíku er best að leita lags,
lát geyma strax
þessa gröf inn til þriðja dags.

3.
Máske líkið með leyndum hljótt
lærisveinar hans taki um nótt
og lýðnum segi það lygaskin.
Þá líst ei kyn,
þó verði sú villan verri en hin.

4.
Pílatus víst þeim varðhald fékk,
vaktin strax út af staðnum gekk.
Gröfinni blifu herrans hjá
og svo til sjá,
settu innsigli steininn á.

5.
Gyðinga hörð var heiftin beisk,
hjartans blindleiki og villan treisk.
Þeim kunni ei nægjast kvöl og bann
sem Kristur fann.
Líka dauðan þeir lasta hann.

6.
Forðastu svoddan fíflskugrein
framliðins manns að lasta bein.
Sá dauði hefur sinn dóm með sér,
hver helst hann er.
Sem best haf gát á sjálfum þér.

7.
Gyðingar vildu veita rýrð
vors lausnara upprisudýrð.
En drottins vald og vísdómsráð
þess vel fékk gáð,
verk sitt framkvæmdi víst með dáð.

8.
Hefði ei vaktin geymt og gætt
grafarinnar, sem nú var rætt,
orsök var meiri að efast þá
hvort upp réð stá
drottinn vor Jesús dauðum frá.

9.
En þeir sjálfir, og er það víst,
upprisu drottins hafa lýst
þó kennimenn Júða af kaldri styggð,
kvaldir í blygð,
keyptu þá til að bera lygð.

10.
Öll svikráð manna og atvik ill
ónýtir drottinn þá hann vill.
Hans ráð um eilífð stöðugt stár
og stjórnin klár,
slægðin dramblátra slétt forgár.

11.
Hvíli ég nú síðast huga minn,
herra Jesú, við legstað þinn.
Þegar ég gæti að greftran þín
gleðst sála mín,
skelfing og ótti dauðans dvín.

12.
Sektir mínar og syndir barst
sjálfur þegar þú píndur varst.
Upp á það dóstu, drottinn kær,
að kvittuðust þær,
hjartað því nýjan fögnuð fær.

13.
Þú grófst þær niður í gröf með þér,
gafst þitt réttlæti aftur mér.
Í hafsins djúp, sem fyrir spáð finnst,
þeim fleygðir innst.
Um eilífð verður ei á þær minnst.

14.
Svo er nú syndin innsigluð,
iðrandi sála kvitt við Guð,
eilíft réttlæti uppbyrjað
í annan stað.
Trúuð manneskja þiggur það.

15.
Dauðinn þinn, Jesú, deyði hér
dárlega holdsins girnd í mér.
Gröfin þín hylji glæpi mín
fyrir Guðs augsýn.
Efli mér styrk upprisan þín.

16.
Steinþró míns hjarta úthöggvin sést,
heilagur andi vann það best.
Líndúk trúar ég læt í té,
minn lausnari.
Ilmandi smyrsl iðrunin sé.

17.
Svo finni ég hæga hvíld í þér,
hvíldu, Jesú, í brjósti mér.
Innsigli heilagur andi nú
með ást og trú,
hjartað mitt svo þar hvílist þú.

18.
Dýrð, vald, virðing og vegsemd hæst,
viska, makt, speki og lofgjörð stærst
sé þér, ó Jesú, herra hár,
og heiður klár.
Amen, amen, um eilíf ár.

Amen

Fyrir Jesú náð iðrast syndarinn.
Fyrir Jesúm náðast iðrandi syndari.


Lofaður sé Guð og blessað sé hans
heilaga nafn að eilífu.
Amen. Amen.  
Hallgrímur Pétursson
1614 - 1674


Ljóð eftir Hallgrím Pétursson

Um dauðans óvissu tíma
Ölerindi
Allt eins og blómstrið eina
Heilræðavísur
49. sálmur
48. sálmur
47. sálmur
46. sálmur
45. sálmur
44. sálmur
43. sálmur
42. sálmur
41. sálmur
40. sálmur
39. sálmur
38. sálmur
37. sálmur
36. sálmur
35. sálmur
34. sálmur
33. sálmur
32. sálmur
31. sálmur
30. sálmur
29. sálmur
28. sálmur
27. sálmur
25. sálmur
24. sálmur
23. sálmur
22. sálmur
21. sálmur
20. sálmur
19. sálmur
18. sálmur
17. sálmur
16. sálmur
15. sálmur
14. sálmur
13. sálmur
12. sálmur
11. sálmur
10. sálmur
9. sálmur
8. sálmur
7. sálmur
6. sálmur
5. sálmur
4. sálmur
3. sálmur
2. sálmur
1. sálmur
50. sálmur
26. sálmur
Móðurmálið