8. sálmur
Prédikun Kristí fyrir Gyðingum

1.
Talaði Jesús tíma þann
til við óvini sína
sem komnir voru að höndla hann.
Heyrum þá kenning fína.

2.
Sem til illvirkja eruð þér
útgengnir mig að fanga.
Áður gat enginn meinað mér
í musterinu að ganga.

3.
Daglega hef ég sýnt og sagt
sannleikans kenning mæta.
Enginn gat hendur á mig lagt,
ættuð nú þess að gæta.

4.
Yfir stendur nú yðar tíð
uppfyllt svo ritning verði.
Myrkranna geisar maktin stríð,
mæla svo Jesús gjörði.

5.
Ljúflyndi blessað lausnarans
líttu hér, sál mín kæra.
Sá vill ei dauða syndugs manns,
svoddan máttu nú læra.

6.
Jesús þeim sýndi í sannri raun
sálarheill, náð og frelsi.
Guðs syni Júðar guldu í laun
grimmd, hatur og fangelsi.

7.
Furða það, sál mín, engin er,
ei skalt því dæmi týna
þó veröldin launi vondu þér
velgjörð mjög litla þína.

8.
Gyðinga dæmi skynja skalt,
skil þig við ódyggð slíka.
Þakklæti fyrir góðgjörð gjald
Guði og mönnum líka.

9.
Ég læt mér þessu jafnframt sagt,
Jesú, af orðum þínum:
Enginn gat hendur á þig lagt
af eigin vilja sínum.

10.
Þann takmarkaða tímans punkt
tilsetti faðirinn mildi
nær það ánauðarokið þungt
yfir þig ganga skyldi.

11.
Eins upphaf líka og ending með
allrar hörmungar minnar,
faðir himneski, er fyrir séð
í forsjón miskunnar þinnar.

12.
Þessi nú tíminn yðar er,
óvinum Jesús sagði.
Herrans ég þetta máltak mér
í minni og hjarta lagði.

13.
Nú stendur yfir mín náðartíð.
Nauðsyn er þess ég gætti.
Líður mig drottins biðlund blíð
brot mín svo kvittast mætti.

14.
Ef ég þá tíð sem Guð mér gaf
gálaus forsóma næði
drottins tími þá tekur af
tvímælin öll í bræði.

15.
Því lengur sem hans biðlund blíð
beðið forgefins hefur
þess harðari mun heiftin stríð
hefndar þá drottinn krefur.

16.
Guðs vegna að þér gá, mín sál,
glæpum ei lengur safna.
Gjörum iðran því meir en mál
mun vera synd að hafna.

17.
Í dag við skulum skipta um skjótt,
skal synd á flótta rekin.
Hver veit nema sé nú í nótt
náðin í burtu tekin.

18.
Talar Jesús um myrkra makt.
Merkið það, valdstjórnendur.
Yður skal nú í eyra sagt:
Umdæmið heims tæpt stendur.

19.
Ljósið myrkrin burt leiðir frí
með ljóma birtu sinnar.
Varast að skýla skálkinn því
í skugga maktar þinnar.

20.
Minnstu að myrkra maktin þverr
þá myrkur dauðans skalt kanna
í ystu myrkrum og enginn sér
aðgreining höfðingjanna.

21.
Myrkri léttari er maktin þín,
minnst þess fyrir þinn dauða,
þá drottins hátignar dýrðin skín
hann dæmir eins ríka og snauða.

22.
Fyrst makt heims er við myrkur líkt,
mín sál, halt þér í stilli.
Varastu þig að reiða ríkt
á ríkismannanna hylli.

23.
Drottinn Jesú, þú lífsins ljós,
lýstu valdstjórnarmönnum
svo þeir sem ráða yfir oss
eflist að dyggðum sönnum.

24.
Jesú, þín kalda kvalastund
kvalatíð af mér svipti.
Guðs barna gafst mér gleðifund,
góð voru þau umskipti.

25.
Myrkranna þrengdi maktin þér
mig svo leystir úr vanda.
Kvalanna ystu myrkur mér
mega því aldrei granda.

.....................Amen
 
Hallgrímur Pétursson
1614 - 1674
Orðskýringar:

forgefins: til einskis
forsóma: vanrækja



Ljóð eftir Hallgrím Pétursson

Um dauðans óvissu tíma
Ölerindi
Allt eins og blómstrið eina
Heilræðavísur
49. sálmur
48. sálmur
47. sálmur
46. sálmur
45. sálmur
44. sálmur
43. sálmur
42. sálmur
41. sálmur
40. sálmur
39. sálmur
38. sálmur
37. sálmur
36. sálmur
35. sálmur
34. sálmur
33. sálmur
32. sálmur
31. sálmur
30. sálmur
29. sálmur
28. sálmur
27. sálmur
25. sálmur
24. sálmur
23. sálmur
22. sálmur
21. sálmur
20. sálmur
19. sálmur
18. sálmur
17. sálmur
16. sálmur
15. sálmur
14. sálmur
13. sálmur
12. sálmur
11. sálmur
10. sálmur
9. sálmur
8. sálmur
7. sálmur
6. sálmur
5. sálmur
4. sálmur
3. sálmur
2. sálmur
1. sálmur
50. sálmur
26. sálmur
Móðurmálið