15. sálmur
Um ráðstefnu prestanna yfir Kristó

1.
Mjög árla uppi voru
öldungar Júða senn,
svo til samfundar fóru,
fyrstir þó kennimenn.
Í ráðslag létu leiðast,
líkar það öllum vel,
hvernig þeir gætu greiðast
Guðs syni komið í hel.

2.
Heimtu með heiftarlundu
herrann vorn til sín brátt,
orsök því enga fundu,
allir senn mæltu hátt:
Seg oss, ef ertu Kristur,
einasti son Guðs sá.
Græðarinn gæskulystur
gaf andsvar þar upp á:

3.
Þó ég það yður segi,
ekki samt trúi þér,
andsvarið mér og eigi
ef ég spyr nokkurs hér.
Mannsins son sjáið sitja
senn hjá Guðs hægri hlið,
í skýi mun einu vitja
aftur með dýrðarsið.

4.
Ertu Guðs son? þeir sögðu,
svaraði drottinn: Já.
Djarfir þann dóm á lögðu:
Dauða maður er sá.
Upp stóðu strax að stundu,
stríð þeim í hjarta brann,
frelsarann fjötrum bundu,
færðu Pílató hann.

5.
Hér máttu, sál mín, sanna
svo gengur það til víst,
ástundan illvirkjanna
umhyggju vantar síst.
Árla þeir blundi bregða,
binda fast öll sín ráð,
klóklega hrekkjum hegða
hver sem þess fengi gáð.

6.
En þú sem átt að vera
útvalinn drottins þjón,
verk hans og vilja að gjöra
og varast þitt sálartjón.
Andvara engan hefur,
umhyggjulítill sést,
við glys heims gálaus sefur.
Guð náði svoddan brest.

7.
Margir upp árla rísa,
ei geta sofið vært,
eftir auð heimsins hnýsa,
holdsgagnið er þeim kært.
Sálin í brjósti sofnuð
sýnist að mestu dauð,
til allra dyggða dofnuð
sem drottinn helst þó bauð.

8.
Forsjónarverkmenn vísir
víngarði drottins í
fyrst þá dagsljóminn lýsir
ljúft bið ég gái að því.
Um sitt embætti hyggi,
árla gjörð bænin sé,
iðjulausir ei liggi
í líkamans gjálífi.

9.
Hatursmenn herrans vaka,
hugsandi að gjöra tjón.
Eftir því áttu að taka
ef ertu hans tryggðaþjón.
Viljir þú við þeim sporna
og varast þeirra háð,
árla dags alla morgna
við orð Guðs haltu ráð.

10.
Þenk nú í þínu hjarta,
þar næst í annan stað,
hvar um herrann réð kvarta,
hyggja máttu þar að.
Orðum hans ekki treystu
illgjarnir Júðar þeir,
úr spurning engri leystu,
æ því versnuðu meir.

11.
Hver trúir nú hart þó hóti
herrann forhertum lýð?
Allfæstir inna á móti
iðrunarsvörin blíð.
Hirtingar hjálpa ekki,
heimur versnandi fer.
Blindleikinn trúi ég oss blekki,
búið straff nálægt er.

12.
Víst er ég veikur að trúa,
veistu það, Jesú, best,
frá syndum seinn að snúa,
svoddan mig angrar mest.
Þó framast það ég megna
þínum orðum ég vil
treysta og gjarnan gegna.
Gef þú mér náð þar til.

13.
Mér er sem í eyrum hljómi
úrskurður drottins sá,
árla á efsta dómi
upp þegar dauðir stá.
Afsökun ei mun stoða,
andsvör né spurningar.
Sá stendur víst í voða
sem verður sekur þar.

14.
Hér er nú kostur að heyra
herrann talandi í náð.
Jesús opni mitt eyra
svo að því fengi ég gáð.
Hógvær vors bata bíður,
blessaður þessa tíð,
annars heims er hann stríður
öllum forhertum lýð.

15.
Árla úrskurðinn lögðu
á þig Gyðingar þó,
Jesú, og sekan sögðu,
seldu þig Pílató.
Árla á efsta degi
afsökun gildir sú,
til dauða ég dæmist eigi,
drottinn, þess minnist þú.

16.
Árla dags uppvaknaður
ætíð ég minnist þín.
Jesú minn hjálparhraður,
hugsa þú æ til mín.
Árla á efsta dómi
afsökun vertu mér.
Minnstu þá frelsarinn frómi
hvað fyrir mig leiðstu hér.

...................Amen
 
Hallgrímur Pétursson
1614 - 1674
Sálmatexti úr útgáfu Landsbókasafns - Háskólabókasafns (1996)


Orðskýringar:

frómur: góður
inna: segja
stá: standa



Ljóð eftir Hallgrím Pétursson

Um dauðans óvissu tíma
Ölerindi
Allt eins og blómstrið eina
Heilræðavísur
49. sálmur
48. sálmur
47. sálmur
46. sálmur
45. sálmur
44. sálmur
43. sálmur
42. sálmur
41. sálmur
40. sálmur
39. sálmur
38. sálmur
37. sálmur
36. sálmur
35. sálmur
34. sálmur
33. sálmur
32. sálmur
31. sálmur
30. sálmur
29. sálmur
28. sálmur
27. sálmur
25. sálmur
24. sálmur
23. sálmur
22. sálmur
21. sálmur
20. sálmur
19. sálmur
18. sálmur
17. sálmur
16. sálmur
15. sálmur
14. sálmur
13. sálmur
12. sálmur
11. sálmur
10. sálmur
9. sálmur
8. sálmur
7. sálmur
6. sálmur
5. sálmur
4. sálmur
3. sálmur
2. sálmur
1. sálmur
50. sálmur
26. sálmur
Móðurmálið