34. sálmur
Það fyrsta orð Kristí á krossinum

1.
Þegar kvalarar krossinn á
keyra vorn herra gjörðu,
flatur með trénu lagður lá
lausnarinn niður á jörðu.
Andlitið horfði í þeim stað
og augun hans blessuð himnum að.
Hann stundi af angri hörðu.

2.
Sinn faðm allt eins og barnið blítt
breiddi mót föðurnum kæra.
Blóðið dundi og tárin títt,
titraði holdið skæra.
Hér skoða, maður, huga þinn,
hvað kunni meira nokkurt sinn
drottin til hefndar hræra.

3.
Óvinum friðar blíður bað
brunnur miskunnarinnar.
Hann vill þeir njóti einnig að
ávaxtar pínu sinnar,
sagði: Faðir, þeim fyrirgef þú,
forblindaðir ei vita nú
sjálfir hvað vont þeir vinna.

4.
Lausnara þínum lærðu af
lunderni þitt að stilla.
Hógværðardæmið gott hann gaf,
nær gjöra menn þér til illa.
Blót og formæling varast vel,
á vald Guðs allar hefndir fel,
heift lát ei hug þinn villa.

5.
Þótt þú við aðra saklaus sért
sannlega skalt þess gæta,
samt fyrir Guði sekur ert,
sá á frjálst þig að græta.
Illir menn eru í hendi hans
hirtingarvöndur syndugs manns.
Enginn kann þess að þræta.

6.
Óvinum ills þó óskir hér,
ei minnkar heiftin þeirra,
óþolinmæði eykur þér,
afrækir boð þíns herra.
Þú styggir Guð með svoddan sið,
samviskan mjög þar sturlast við.
Böl þitt verður því verra.

7.
Upplýstu hug og hjarta mitt,
herra minn, Jesú sæti,
svo að ég dýrðardæmið þitt
daglega stundað gæti.
Þeir sem óforþént angra mig
óska ég helst að betri sig
svo hjá þér miskunn mæti.

8.
Heimsins og djöfuls hrekkjavél
holdið þrálega villa,
þess vegna ekki þekki ég vel
þó nú margt gjöri illa.
Beri svo til ég blindist hér,
bið þú þá, Jesú, fyrir mér.
Það mun hefnd harða stilla.

9.
Ég má vel reikna auman mig
einn í flokk þeirra manna
sem í kvölinni þjáðu þig,
það voru gjöld syndanna.
En þú sem bættir brot mín hér,
bið þú nú líka fyrir mér
svo fái ég frelsun sanna.

10.
Fyrst þú baðst friðar fyrir þá
er forsmán þér sýndu mesta,
vissulega ég vita má,
viltu mér allt hið besta,
því ég er Guðs barn og bróðir þinn,
blessaði Jesú, herra minn.
Náð kann mig nú ei bresta.

11.
Allra síðast þá á ég hér
andláti mínu að gegna,
sé þá, minn Guð, fyrir sjónum þér
sonar þíns pínan megna,
þegar hann lagður lágt á tré
leit til þín augum grátandi.
Vægðu mér því hans vegna.

...................Amen  
Hallgrímur Pétursson
1614 - 1674


Ljóð eftir Hallgrím Pétursson

Um dauðans óvissu tíma
Ölerindi
Allt eins og blómstrið eina
Heilræðavísur
49. sálmur
48. sálmur
47. sálmur
46. sálmur
45. sálmur
44. sálmur
43. sálmur
42. sálmur
41. sálmur
40. sálmur
39. sálmur
38. sálmur
37. sálmur
36. sálmur
35. sálmur
34. sálmur
33. sálmur
32. sálmur
31. sálmur
30. sálmur
29. sálmur
28. sálmur
27. sálmur
25. sálmur
24. sálmur
23. sálmur
22. sálmur
21. sálmur
20. sálmur
19. sálmur
18. sálmur
17. sálmur
16. sálmur
15. sálmur
14. sálmur
13. sálmur
12. sálmur
11. sálmur
10. sálmur
9. sálmur
8. sálmur
7. sálmur
6. sálmur
5. sálmur
4. sálmur
3. sálmur
2. sálmur
1. sálmur
50. sálmur
26. sálmur
Móðurmálið