37. sálmur
Annað orð Kristí á krossinum

1.
Uppreistum krossi herrans hjá
hans móðir standa náði.
Sverðið, sem fyrr nam Símeon spá,
sál og líf hennar þjáði.
Jóhannes einnig, Jesú kær,
jafnt var þar líka staddur nær.
Glöggt sá að öllu gáði.

2.
Sinni móður hann segja réð:
Son þinn líttu þar, kvinna.
Við lærisveininn líka með
lausnarinn blítt nam inna:
Sjá þú og móður þína þar.
Þaðan í frá, sem skyldugt var,
sá tók hana til sinna.

3.
Sá sem hlýðninnar setti boð
sinni blessun réð heita
þeim er foreldrum styrk og stoð
stunda með elsku að veita.
Svoddan dyggðanna dæmið hér
drottinn vor sjálfur gaf af sér
börnunum eftir að breyta.

4.
Girnist þú, barn mitt, blessun fá,
björg lífs og gæfu fína,
foreldrum skaltu þínum þá
þóknun og hlýðni sýna.
Ungdómsþverlyndið oftast nær
ólukku og slys að launum fær.
Hrekkvísa hefndir pína.

5.
Ekkjurnar hafa einnig hér
ágætis huggun blíða.
Jesús allt þeirra angur sér,
aðstoð þeim veitir fríða,
ef þær með hreinum hug og sið
halda sig drottins pínu við
og hans hjálpræðis bíða.

6.
María, drottins móðir kær,
merkir Guðs kristni sanna,
undir krossinum oftast nær
angur og sorg má kanna.
Til hennar lítur þar herrann hýrt,
huggunarorðið sendir dýrt
og forsjón frómra manna.

7.
Það reynist oft í heimi hér
hlutfall drottins ástvina,
hörmungarsverðið sárt þá sker,
sæld lífsins gleður hina,
hverjir þó Kristum hæða mest.
Hefur svo löngum viðgengist,
lítt vill því angri lina.

8.
Enn þeir sem Jesúm elska af rót
undir krossinum standa,
herrans blóðfaðmi horfa á mót,
hvern þeir líta í anda.
Trúar og vonar sjónin sett
sár hans og benjar skoðar rétt,
það mýkir mein og vanda.

9.
Jesús einnig með ást og náð
aftur til þeirra lítur,
gefur hugsvölun, hjálp og ráð,
harmabönd af þeim slítur.
Aðgætin föðuraugun klár
öll reikna sinna barna tár,
aðstoð þau aldrei þrýtur.

10.
Ég lít beint á þig, Jesú minn,
jafnan þá hryggðin særir.
Í mínum krossi krossinn þinn
kröftuglega mig nærir.
Sérhvert einasta sárið þitt
sannlega græðir hjartað mitt
og nýjan fögnuð færir.

11.
Þá ég andvarpa, óska og bið,
augunum trúar minnar
lít ég hvert einast orðið við
upp til krosspínu þinnar.
Strax sýna mér þín signuð sár,
syndugum manni opinn stár
brunnur blessunarinnar.

12.
Gleðistund holds þá gefur mér
Guð minn að vilja sínum,
upp á þig, Jesú, horfi ég hér
hjartans augunum mínum.
Auðlegðargæðin líkamleg
láttu þó aldrei villa mig
frá krossins faðmi þínum.

13.
Jónas sat undir einum lund,
engra meina því kenndi,
hádegissólar hitastund
hann ei til skaða brenndi.
Jesú krossskugga skjólið hér
skýlir þó langtum betur mér
fyrir Guðs heiftarhendi.

14.
Hvort ég sef, vaki, sit eður stá
í sælu og hættum nauða,
krossi þínum ég held mig hjá,
horfandi á blóð þitt rauða.
Lát mig einnig þá ævin þverr
út af sofna á fótum þér,
svo kvíði ég síst við dauða.

............Amen  
Hallgrímur Pétursson
1614 - 1674
Orðskýringar:

frómur: guðrækinn, góður
inna: segja
klár: skír


Ljóð eftir Hallgrím Pétursson

Um dauðans óvissu tíma
Ölerindi
Allt eins og blómstrið eina
Heilræðavísur
49. sálmur
48. sálmur
47. sálmur
46. sálmur
45. sálmur
44. sálmur
43. sálmur
42. sálmur
41. sálmur
40. sálmur
39. sálmur
38. sálmur
37. sálmur
36. sálmur
35. sálmur
34. sálmur
33. sálmur
32. sálmur
31. sálmur
30. sálmur
29. sálmur
28. sálmur
27. sálmur
25. sálmur
24. sálmur
23. sálmur
22. sálmur
21. sálmur
20. sálmur
19. sálmur
18. sálmur
17. sálmur
16. sálmur
15. sálmur
14. sálmur
13. sálmur
12. sálmur
11. sálmur
10. sálmur
9. sálmur
8. sálmur
7. sálmur
6. sálmur
5. sálmur
4. sálmur
3. sálmur
2. sálmur
1. sálmur
50. sálmur
26. sálmur
Móðurmálið